Vatnsdeigsbollur með Rice Krispies miðju⌑ Samstarf ⌑
vatnsdeigsbollur með karamellu

Þegar góðir heimar mætast gerast undraverðir hlutir! Hver man ekki eftir Rice Krispies köku með bananarjóma og karamellu! Hér er sú kaka komin inn í vatnsdeigsbollu, hamingjan hjálpi mér þetta var svooooo gott!

Það má útbúa sjálfur vatnsdeigsbollur eða hreinlega kaupa þær tilbúnar og setja þetta saman. Það er einnig hægt að fá tilbúna þykka karamellusósu víða og með því getið þið stytt ykkur enn frekar leið að þessari dásemd.

rice krispies vatnsdeigsbollur

Við vorum í Austurríki á dögunum og á heimleið fór ég að stúdera þær uppskriftir sem væru fyrstar á listanum þegar heim væri komið og Lukka vinkona kom með þessa frábæru hugmynd. Ég hló síðan reyndar upphátt þegar ég sá að þessi hugmynd, sem mér fannst svo út fyrir kassann, hefur verið gerð áður af Völlu Gröndal fyrir síðuna Gulur rauður grænn og salt. Ég ákvað hins vegar að halda mínu striki því „great minds“ þið vitið…..gera þetta bara enn betra! Mæli því líka með að þið kíkið á síðuna hennar Völlu, hún er með fullt af girnilegum uppskriftum!

bollurdagurinn uppskriftir

Vatnsdeigsbollur með Rice Krispies miðju

Um 15 stykki

Vatnsdeigsbollur

 • 360 ml vatn
 • 180 g smjör
 • 200 g hveiti
 • 1 tsk. lyftiduft
 • ¼ tsk. salt
 • 3 egg (160 g)
 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Blandið hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og leggið til hliðar.
 3. Pískið eggin í skál, vigtið og geymið. Ef eggin eru lítil gæti þurft aðeins meira en 3 egg.
 4. Hitið vatn og smjör saman í potti þar til smjörið bráðnar og leyfið aðeins að sjóða, slökkvið þá á hellunni.
 5. Setjið þurrefnin saman við og hrærið vel þar til „smjörbolla“ myndast.
 6. Færið þá deigið yfir í hrærivélarskálina og hrærið rólega með K-inu þar til mesti hitinn er farinn út því.
 7. Bætið þá eggjunum saman við í nokkrum skömmtum og hrærið áfram saman.
 8. Setjið þá kúfaða matskeið á bökunarpappír fyrir hverja bollu (ég notaði litla ísskeið) og bakið í 30-35 mínútur eða þar til bollurnar verða vel gylltar. Alls ekki opna ofninn til að kíkja á þær/botninn fyrr en í fyrsta lagi eftir 25 mínútur því þá eru meiri líkur á því að þær falli.
 9. Leyfið bollunum að kólna, skerið þær í sundur og hefjist handa við fyllingarnar (sjá hér að neðan).

Rice Krispies miðja

 • 150 g Síríus suðusúkkulaði
 • 40 g smjör
 • 150 g sýróp (í grænu flöskunni)
 • 100 g Rice Krispies
 1. Hitið Síríus suðusúkkulaði, smjör og sýróp saman í potti þar til bráðið, leyfið að bubbla í smá stund og slökkvið síðan á hellunni og leyfið hitanum aðeins að rjúka úr blöndunni.
 2. Blandið Rice Krispies næst saman við og setjið síðan væna matskeið af hrísblöndu ofan á neðri helminginn á hverri bollu.

Banana rjómafylling

 • 400 ml rjómi
 • 1 stór banani (eða 2 minni)
 1. Þeytið rjómann og skerið banana í litla bita, vefjið þeim saman við rjómann með sleikju.
 2. Setjið vel af bananarjóma ofan hrískökumiðjuna og lokið bollunni þá með efri hlutanum og setjið karamellu + Síríus karamellukurl ofan á (sjá uppskrift að neðan).

Karamella og skraut

 • 150 g sykur
 • 60 g smjör við stofuhita
 • 80 ml rjómi
 • ½ tsk. salt
 • Síríus karamellukurl
 1. Bræðið sykurinn á pönnu, bætið smjörinu saman við og hrærið vel þar til bráðið og bubblar.
 2. Hellið þá rjómanum saman við, hrærið áfram vel og leyfið að sjóða saman í um hálfa mínútu, slökkvið þá á hellunni, bætið saltinu saman við og hellið karamellunni yfir í skál. Leyfið henni að ná stofuhita, við það þykknar hún.
 3. Setjið kúfaða teskeið af karamellu á hverja bollu og stráið síðan Síríus karamellukurli yfir til skrauts.
 4. Ef karamellan bíður lengi og verður of þykk hjá ykkur þá má setja hana í örbylgjuofn í um 15 sekúndur á meðallágum hita og hræra hana upp aftur.
rice krispies á bolludaginn

Síríus suðusúkkulaðið er lykilatriði í góðum hrískökum og best finnst mér að hafa nóg af því!

vatnsdeigsbollur

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun