
Ég veit ekki hversu lengi ég er búin að ætla mér að grilla pizzu á útigrillinu! Ég hef hugsað þetta vel, skoðað pizzasteina víða en einhvern vegin ekki látið verða af þessu. Ég setti meira að segja pizzastein á jólagjafalistann en allt kom fyrir ekki. Nú er ég hins vegar búin að prófa Weber pizzasteinana og er held ég muni ekki setja pizzu inn í ofn oftar, pizzurnar voru hreint út sagt DÁSAMLEGAR!

Ég las mér til á veraldarvefnum og komast að ýmsu gagnlegu. Sumir vildu hafa þunna álbakkann á milli, aðrir á bökunarpappír og enn aðrir vildu setja deigið beint á steininn. Ég prófaði þetta eðlilega allt og komst að því að botninn varð enn stökkari og betri með því að hafa ekki álbakkann á milli en það skipti ekki máli hvort deigið fór beint á steininn eða með bökunarpappír. Það er auðveldara að eiga við botnana með bökunarpappír undir svo ég mun klárlega grilla pizzurnar með þeim hætti í framtíðinni.

Það er mikilvægt að ná upp góðum hita í grillinu áður en pizzan fer á steininn og sá ég að mælt var með að hafa grillið í gangi í að minnsta kosti hálftíma áður en byrjað yrði að baka svo ég hlýddi því eðlilega. Áður en ég setti fyrstu pizzur á steinana lækkaði ég niður í meðalháan hita og mælirinn sýndi um 250°C að jafnaði þegar ég bakaði pizzurnar.

Spaðinn auðveldaði verkið til muna þar sem grillið er mjög heitt svo ég mæli klárlega með að fjárfesta í einum slíkum samhliða steininum.
Það tók pizzurnar sem fóru á bökunarpappír að jafnaði 5-6 mínútur að verða tilbúnar á meðan sú sem fór á álbakkanum var í um 8-9 mínútur að verða tilbúin. Ég var með einn 30 x 44 cm stein og annan hringlaga 36 cm í þvermál svo það var ágætis framleiðsla af pizzum hér þetta kvöld. Grillinu er síðan lokað á meðan pizzan eldast til þess að hún eldist sem jafnast.
Ég komst einnig að því að mikilvægt væri að hafa ekki of þunna pizzasósu og ekki setja of mikið álegg því pizzan bakast hraðar að neðan en ofan og ekki gaman ef hún verður of blaut eða áleggið illa eldað. Ég gerði því nokkrar mismunandi pizzur, allir voru himinsælir með útkomuna og hverfið ilmaði eins og að pizzastaður væri nýbúinn að opna hér!

Nammi nammi, hversu girnilegt!

Vonandi hafa ofangreindar upplýsingar gagnast ykkur sem eruð að spá í að fá ykkur pizzastein og hér kemur uppskrift af deigi sem gefur vel af pizzu. Endilega helmingið hana viljið þið minna magn, það er bara svo gott að eiga pizzu daginn eftir líka í nesti eða hádegismat, held við höfum í það minnsta aldrei þurft að henda pizzu, sama hvað við gerum mikið af henni.
Grillaðar pizzur uppskrift
Pizzadeig
- 900 g hveiti
- 1 ½ pk þurrger
- 1 msk salt
- 520 ml volgt vatn
- 4 msk ólífuolía
- Blandið öllum hráefnum saman í hrærivélarskálina og hnoðið með króknum.
- Bætið smá vatni eða hveiti við eftir því hvort deigið er of þurrt eða blautt í sér. Best finnst mér að reyna að ná því eins blautu og hægt er án þess að það klístrist við allt.
- Hjúpið stóra skál með matarolíu og komið deigkúlunni fyrir þar í, snúið einu sinni svo allt deigið hjúpist olíu og setjið plastfilmu á skálina og leyfið að hefast í klukkustund.
- Skiptið niður í 3-4 stórar (30 x 44 cm steinninn) eða 5-6 hringlaga (36 cm hringlaga steinninn).

Ég gerði þrjár mismunandi pizzur og hér fyrir ofan er pizza með mozzarella, tómötum og basiliku. Ég grillaði hana með pizzasósu, rifnum osti, mozzarellakúlum og tómötum og skar svo ferska basiliku á þegar hún kom af grillinu og dreifði yfir.

Það er síðan geggjað að setja góðar ólífuolíur á grillaðar pizzur þegar þær eru tilbúnar!

Þessi hér var grilluð sem margarita (með pizzasósu og osti) og síðan sett á hana kál/klettasalat, hráskinka og rifinn parmesanostur. Toppað með góðri ólífuolíu!

Svo þessi típíska fyrir stelpurnar, pizzasósa, ostur, ananas og pepperoni. Oregano stráð yfir í lokin og hvítlauksolíu.

Svona lítur bökunarpappírinn út þegar hann hefur legið á milli pizzu og steins.
Minni á Gotterí og gersemar á INSTAGRAM, megið endilega fylgja mér þar.