
Það er fátt betra en heimabakað brauð, ylvolgt með góðu áleggi!

Ég bakaði á dögunum pottabrauð og notaði grunninn af þeirri uppskrift fyrir þetta dásamlega hátíðarbrauð. Trönuber og valhnetur eru það sem setja síðan jólin í þetta undursamlega brauð.

Hátíðarbrauð
- 1 þurrgersbréf (11,8 g)
- 3 msk. hunang
- 280 ml volgt vatn
- 2 tsk. salt
- 360 g Polselli Manitoba hveiti
- 50 g saxaðar valhnetur
- 50 g þurrkuð trönuber
- Setjið þurrger, hunang og volgt vatn saman í hrærivélarskálina og leyfið að standa í um 5 mínútur þar til gerið fer aðeins að freyða.
- Hellið þá saltinu og hveitinu saman við í nokkrum skömmtum, hrærið á lægsta hraða með króknum þar til deigið byrjar að losna frá hliðunum (deigið er aðeins klístrað og það er allt í lagi). Bætið þá hnetum og trönuberjum saman við og hrærið aðeins áfram.
- Hjúpið deigkúluna með vel af hveiti og leyfið að hefast í hrærivélarskálinni í klukkustund.
- Takið deigið þá úr skálinni og færið yfir á hveitistráðan flöt á borði, togið deigið inn að miðju eins og þið séuð að pakka því inn allan hringinn, snúið því svo við og mótið fallega kúlu.
- Setjið kúluna í hveitihúðaða skál með sléttu hliðina upp og stráið aftur hveiti allan hringinn svo það festist ekki við skálina í seinni hefun, leyfið að hefast í skálinni í 30 mínútur.
- Hitið á meðan ofninn í 220° og setjið pottinn inn í á meðan til að hita hann.
- Takið deigkúluna varlega upp úr skálinni og leggið hana í heitan pottinn, nú má slétta kúluhliðin snúa niður svo smá óreglulegt mynstur komi við baksturinn.
- Bakið með lokið á pottinum í 30 mínútur, takið lokið þá af og bakið aftur í 10 mínútur.
- Leyfið brauðinu síðan að kólna í um 15 mínútur áður en það er skorið niður.
- Gott er að bera brauðið fram með góðri sultu og brie osti en það er einnig gott með smjöri og osti, hummus eða öðru áleggi.

Polselli manitoba hveitið hentar vel í brauð og súrdeigsbrauð en það hveiti er sterkara en það hefðbundna. Því hentar það líka fyrir stærri brauð með langan hefunartíma svo ég mun klárlega prófa það aftur fljótlega í brauðgerð!
Polselli Manitoba hveitið fæst Melabúðinni, Stórkaup, Fjarðarkaup, Hlíðarkaup, Pétursbúð, Þín verslun Kassinn , Smáalind, Hamóna, Sandholt, Lindabakarí, Nesbrauð, Kallabakarí, Sesam brauðhús, GK Bakarí og Veislubakstur Akureyri.
