
Ég útbjó þessa skyrköku á dögunum fyrir Gott í matinn en þangað set ég inn uppskrift í hverjum mánuði. Við elskum skyrkökur og ostakökur og það er endalaust hægt að leika sér með slíkar uppskriftir. Setja í mörg lítil glös/skálar eða gera eina heila köku hverju sinni, allt eftir því hvað hugurinn girnist.

Ég er mjög hrifin af því að nota falleg glös eða skálar fyrir hvern og einn en það má sannarlega setja þessa uppskrift í eina stóra skál.

Súkkulaði skyrkökur uppskrift
Uppskrift dugar í 6-8 glös/skálar
- 500 g Ísey skyr með dökku súkkulaði og vanillu
- 600 ml rjómi frá Gott í matinn (skipt í 400 og 200 ml)
- Súkkulaðimúslí
- Hindber
- Súkkulaðispænir og bökunarkakó til skrauts
- Stífþeytið 400 ml af rjóma og blandið skyrinu varlega saman við með sleif.
- Skiptið niður í glösin og stráið súkkulaðimúslí yfir allt.
- Þeytið 200 ml af rjóma, setjið í sprautupoka með stórum hringlaga stút og sprautið nokkrar „doppur“ ofan á múslíið.
- Sigtið bökunarkakó yfir rjómann og skreytið síðan glasið með súkkulaðispæni og hindberjum.
- Kælið í að minnsta kosti klukkustund áður en þið njótið.

Ég þori varla að segja það en ég hafði aldrei áður smakkað þetta skyr og ákvað því að það yrði fyrir valinu þegar ég var að setja uppskriftina saman. Það er alveg svakalega gott og drottinn minn hvað þessi skyrkaka kom vel út! Hún er síðan þannig að það væri eins hægt að hafa hana í morgunmat eins og eftirmat!

Það besta við hana er síðan að það tók líklega um 20 mínútur að útbúa öll þessi glös!
