Ef það er eitthvað sem allir elska þá er það bananabrauð, það á að minnsta kosti við á þessu heimili! Þessar hér eru æðislegar og sniðugar í nestisboxið!

Hver einasta kaka kláraðist á þessu heimili og stelpurnar nutu þeirra ýmist með mjólk eða smurðu þær með smjöri og osti. Hvorutveggja er alveg dásamlegt og ekki amalegt að eiga svona í frystinum til að grípa með í nesti!

Bananamöffins
Um 20 stykki
- 2 egg
- 80 g sykur
- 80 g púðursykur
- 2-3 þroskaðir bananar
- 130 g brætt smjör
- 2 tsk. vanilludropar
- 180 g hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 2 tsk. kanill
- Hitið ofninn í 170°C.
- Þeytið saman báðar tegundir af sykri og egg þar til létt og ljóst.
- Stappið bananana og bætið þeim saman við ásamt bræddu smjöri og vanilludropum, hrærið varlega saman stutta stund.
- Að lokum má hræra öll þurrefni saman og setja saman við í nokkrum skömmtum.
- Hrærið aðeins þar til blandað, ekki of lengi.
- Skiptið niður í bollakökuform og bakið í um 15 mínútur eða þar til kantarnir á kökunum fara að gyllast.
- Gott er að smyrja kökuna með smjöri og setja ost á fyrir nesti.
