Ég veit ekki alveg hvernig ég á að íslenska þetta nafn en ég elska að fylgjast með Natascha’s Kitchen og sá hana eitt sinn útbúa „Slide Burgers“ og hef haft lengi á to-do listanum hjá mér. Það fást ekki svona „Dinner Rolls“ á Íslandi (ekki svo ég viti að minnsta kosti og ég leitaði líka í Costco, haha) svo ég bakaði slíkar bollur. Það væri hins vegar vel hægt að kaupa hamborgarabrauð eða brauðbollurnar í Costco, skera í sundur og raða þétt í fatið ef þið eruð á hraðferð.

Þetta var virkilega djúsí og gott og skemmtileg nýjung í „hamborgaraflóruna“!

Namm!

„Slide Burgers“
Hamborgarabrauðbollur
- 560 g hveiti
- 1 pk þurrger (11,8 g)
- 70 g sykur
- 1 tsk. salt
- 300 ml volg mjólk
- 80 g smjör við stofuhita
- 1 egg
- 100 g brætt smjör
- Sesamfræ (má sleppa)
- Setjið rúmlega helminginn af hveitinu og öll önnur hráefni (nema brætt smjör og sesamfræ) í hrærivélarskálina og notið krókinn til þess að blanda saman.
- Bætið restinni af hveitinu síðan saman við í nokkrum skömmtum, skafið niður hliðarnar á skálinni á milli og hnoðið síðan í nokkrar mínútur í vélinni.
- Penslið skál að innan með matarolíu, flytjið deigkúluna yfir og veltið upp úr olíunni, plastið skálina og látið hefast í 30-60 mínútur.
- Smyrjið eldfast mót/skúffukökuform vel að innan með smjöri og skiptið deiginu næst niður í 24 hluta.
- Rúllið í litlar bollur og raðið 4 x 6 sinnum í fatið, leyfið að hefast aftur undir klút í 30 mínútur.
- Hitið ofninn í 180°C og útbúið fyllingu og kokteilsósu á meðan (sjá uppskriftir að neðan).
- Penslið bollurnar eftir hefun með hluta af brædda smjörinu og bakið í 16-20 mínútur eða þar til þær fara að gyllast vel og losna örlítið frá köntunum.
- Leyfið þeim aðeins að kólna niður hvolfið úr fatinu og skerið í sundur allar fastar saman. Mér fannst gott að nota kökuskera sem ég á við verkið en góður brauðhnífur og nákvæmni duga vel.
- Setjið neðri hlutann aftur í fatið, setjið fyllinguna á milli og þá efri hlutann. Penslið aftur með vel af smjöri, toppið með smá sesamfræjum, setjið álpappír yfir og aftur inn í ofn í 10-15 mínútur eða þar til allur ostur er vel bráðinn. Skerið niður með hverri bollu allan hringinn og njótið.
Fylling og samsetning
- 800 g ungnautahakk
- 1 laukur
- 6 stórar ostsneiðar
- 150 g rifinn pizzaostur
- Salt, pipar, hvítlauksduft, chilliduft (annað krydd sem ykkur finnst gott)
- 3 msk. Hellmann‘s majónes
- Ólífuolía til steikingar
- Sesamfræ
- Saxið laukinn smátt og steikið upp úr olíu, kryddið til eftir smekk.
- Bætið hakkinu á pönnuna og steikið vel og kryddið.
- Bætið majónesinu saman við í lokin þegar búið er að slökkva á hellunni. Ef það er mikil olía í hakkinu ennþá áður en þetta er gert má halla pönnunni og taka umfram vökva burt með skeið.
- Raðið þá ostsneiðunum ofan á neðri hlutann á bollunum, næst má setja hakkblönduna og jafna úr henni eins og unnt er og að lokum má setja rifna ostinn yfir.
- Skoðið skref 9 hér að ofan hjá bolluuppskriftinni.
- Gott er að bera þetta fram með kokteilsósu (sjá uppskrift að neðan), súrum gúrkum og kartöflubátum/frönskum.
Kokteilsósa
- 200 g Hellmann‘s majónes
- 40 g tómatsósa
- 1 msk. sinnep
- Pískið allt saman í skál og kælið fram að notkun.

Kokteilsósan er lykilatriði til að dýfa bæði borgurum og frönskum í og ég er sannfærð um að kokteilsósa gerir lífið betra, hahaha! Ég sem byrjaði ekki einu sinni að borða kokteilsósu fyrr en á fullorðinsárum og elska hana núna!
