Ég er alltaf að mana mig upp í að prófa að útbúa súr og súrdeig. Ætla bara að viðurkenna að ég veit ekki hvort ég hafi „nennuna“ í það en lofa að ég mun prófa einn daginn til að deila með ykkur ráðum! Á vinkonu sem er algjör meistari í slíku svo ég get sannarlega fengið góð ráð.

Ég prófaði að kaldhefa deigið en ég hef ekki gert það áður, það varð loftmikið og létt og virkilega gott. Ég gerði tvær um 12 tommu pizzur en ef þið viljið hafa botninn þynnri getið þið stækkað þær meira!

Kaldhefuð pizza með humri
2 miðlungs stórar pizzur
Pizzadeig uppskrift
- 520 g Manitoba hveiti frá Kornax
- 1 pk þurrger (12 g)
- 1 tsk. salt
- 1 tsk. sykur
- 380 ml volgt vatn
- 50 ml ólífuolía
- Setjið þurrefnin í hrærivélarskálina og blandið saman með króknum.
- Hellið vatni og olíu varlega saman við og hnoðið í um 8+ mínútur.
- Stráið smá hveiti á borðið, takið deigið úr, skiptið því í tvo hluta og mótið sitthvora kúluna.
- Stráið smá hveiti á disk og leggið kúlurnar þar ofan á, plastið vel og setjið í ísskáp í um tvo sólarhringa (einnig hægt að láta hefast við stofuhita í 1-2 klukkustundir og baka strax).
- Takið deigið síðan úr ísskápnum að minnsta kosti 60 mínútum áður en þið ætlið að nota það til að leyfa því að ná stofuhita. Hitið ofninn á meðan í 240°C.
- Stráið smá hveiti á borðið og ýtið því út með fingrunum og mótið tvær pizzur, færið þær yfir á ofnskúffu íklædda bökunarpappír og setjið áleggið á.
Álegg á pizzu
- 650 g skelflettur humar
- 2 tsk. sítrónusafi
- 30 g smjör
- 2 hvítlauksrif (rifin)
- 200 g rjómaostur við stofuhita
- 10 msk. sweet chili sósa
- Rifinn ostur
- Mozzarella perlur
- Salt, pipar, hvítlauksduft/salt
- Tómatsalsa (sjá uppskrift að neðan)
- Klettasalat
- Ristaðar furuhnetur
- Skolið, hreinsið og þerrið humarinn vel.
- Pískið saman rjómaost og sweet chili sósu, smyrjið yfir pizzurnar (magn eftir smekk).
- Snöggsteikið humarinn upp úr smjöri og hvítlauk, kryddið eftir smekk og takið af pönnunni.
- Setjið rifinn ost, mozzarella perlur og humar á pizzuna og inn í ofn í um 15 mínútur eða þar til kantarnir verða vel gylltir.
- Toppið með klettasalati, tómatsalsa og furuhnetum.
Tómatsalsa
- 250 g piccolo tómatar
- 3 hvítlauksrif (rifin)
- 2 msk. ólífuolía
- Salt/hvítlaukssalt, pipar eftir smekk
- Skerið piccolo tómatana í 4 hluta og setjið í skál.
- Blandið öðrum hráefnum varlega saman við og kryddið eftir smekk.
- Geymið í kæli fram að notkun og berið fram með pizzunni.

Á meðan ég nenni ekki að fara í súrdeig er hins vegar gaman að bralla ýmislegt með Manitoba hveiti! Það er einstaklega sterkt hveiti með langan vinnslutíma og er frábært í pizzadeig, focaccia og margt fleira!

Þessa hugmynd af samsetningu fékk ég senda frá henni Svölu Ýr sem er fylgjandi minn um daginn og gat ekki hætt að hugsa um hana fyrr en ég væri búin að prófa! Ég varð alls ekki fyrir vonbrigðum, mikið sem hún var góð og verður klárlega útbúin aftur á þessu heimili fljótlega!
