Fyrir stuttu síðan fór ég í fyrsta skipti á veitingastaðinn OLIFA La Madre Pizza á Suðurlandsbrautinni. Þetta er pizzastaður með ekta ítölskum brag sem hjónin Ása og Emil opnuðu fyrir rúmu ári síðan til að kynna Íslendinga fyrir alvöru ítalskri pizzagerð. Það fæst reyndar fleira en pizzur á þessum dásamlega stað og verð ég að segja að allt sem við höfum smakkað þarna hefur verið gott svo það segir það sem segja þarf!

Afslappandi umhverfi og fallegheit umlykja þig þegar þú gengur inn á staðinn. Það er greinilega búið að hugsa fyrir hverju smáatriði og hægt er að setjast bæði í næði og kósýheit eða ganga innar í salinn þar sem er tilvalið svæði fyrir hópa eða stórfjölskylduna.

Ég verð að segja að þetta er alls ekki eins og hefðbundin pizza heldur eitthvað allt annað og um leið alveg undursamlega gott. Botnarnir eru þykkir en um leið svo léttir og „krönsí“ og hráefnið algjört gúrme. Mikið vatn er í deiginu sem gerir það svona sérstakt og eru ítalskir bakarar sem vinna þetta á staðnum af mikilli alúð. Pizzasósan er úr lífrænum tómötum frá Puglia og allt hráefni sérvalið frá mismunandi stöðum á Ítalíu. Lúxus olíur frá OLIFA eru síðan á hverju borði ásamt góðum kryddum til þess að toppa pizzurnar með.

Við kíktum nokkrar vinkonur á staðinn í hádeginu einn daginn og byrjuðum á því að fá okkur Antipasto í forrétt, osturinn, hunangið, ólífurnar og kjötið maður minn, namm!

Við fengum okkur síðan nokkrar pizzur til að deila og ég mæli sannarlega með því, svo gaman að smakka nokkrar mismunandi. Fiducia, Curdo e Burrata og Super Piccante urðu fyrir valinu þennan daginn og voru hin fullkomna blanda fyrir okkur.

Ítalska pepperoníið á Piccante pizzunum er æðislegt, það er smá eins og silkiskorið og aðeins stökkt og ó svo gott!

Ég má síðan til með að kynna ykkur fyrir þessu dásamlega ítalska límonaði. Dætur mínar ELSKA það og það er til á veitingastaðnum og í Krónunni.

„Desréttur“ er síðan minn uppáhalds réttur munið þið! Ég elska að geta fengið mér smá sætan bita eftir góða máltíð og við fengum okkur nokkra rétti til að deila. Ostakaka, Panna Cotta og súkkulaðipizza urðu fyrir valinu þennan daginn og deildum við þessu saman til að geta smakkað smá af alls konar, nammi namm!

Það er sannarlega hægt að gera vel við sig á þessum frábæra stað!

Aftan á matseðlinum er síðan „Food Map“ sem sýnir hvaðan á Ítalíu hvert hráefni kemur og er gaman að skoða það á meðan beðið er eftir matnum.

Um daginn tókum við einnig Take Away heim með okkur og fengum til okkar góða gesti. Það var algjör snilld! Við pöntuðum og sóttum pizzur á Suðurlandsbrautina en þær er einnig að fá í nokkrum Krónuverslunum. Pizzurnar fengum við á bakka í bréfpoka, tilbúnar til að hita í ofni heima og það tók aðeins örfáar mínútur.

Ég mæli sannarlega með því að kíkja á þennan dásamlega veitingastað og smakka ekta ítalskar pizzur og annað gómsætt!