Við fjölskyldan keyrðum hringinn í sumarfríinu með stoppi á Austfjörðum í tæpa viku og vorum síðan á Akureyri í nokkra daga. Við keyrðum alla leiðina austur á einum degi og ákváðum að taka nokkur góð stopp á leiðinni. Við keyrðum í einum rikk á Vík í Mýrdal þar sem við fengum okkur hádegismat og kíktum í Schoolbeans Café strætóinn í heitt kakó. Næsta stopp var á Jökulsárlóni því fegurðin þar er engri lík. Við höfum síðan ætlað að heimsækja Pakkhús á Höfn í langan tíma en þegar við vorum á hringferðinni okkar fyrir tveimur árum geisaði Covid og staðurinn var lokaður þegar við vorum í bænum. Það var því alveg klárt mál að núna yrði tekinn snemmbúinn kvöldverður á þessum dásamlega stað áður en við myndum klára ferðalagið alla leið á Eiðar.

Pakkhúsið bar sannarlega nafn með rentu þennan dag því það var gjörsamlega pakkað þar inni síðdegis þegar við mættum, sem segir líklega það sem segja þarf um þennan dásemdar stað.

Við fengum okkur að sjálfsögðu humarsúpu og humar ásamt öðru góðgæti og almáttugur minn, ég gæti mögulega lagt á mig ferð til Hafnar og aftur heim einungis fyrir þennan mat. Staðurinn er síðan virkilega notalegur og allt svo kósý og fallegt að hægt væri að sitja þarna stundunum saman og hafa það huggulegt.

Óáfengir kokteilar, reyktur regnbogasilungur, bakaður brie og humarsúpa voru þeir forréttir sem við deildum og mæli ég mikið með að smakka nokkra og deila síðan, þetta var allt svo gott.

Hemmi fékk sér síðan þorskinn á meðan við mæðgur fengum okkur humar í aðalrétt. Hvorutveggja var undursamlega gott og helst mæli ég með að smakka bæði, við hjónin erum svolítið að vinna með það þegar við förum út að borða, tíhí!

Þessi humar skohhhhhhhhhhhhhh!

Eftirréttirnir voru ekki síður af verri endanum en þar pöntuðum við skyr eldgíg, lakkrís créme brúlée og heimagerðan ís í súkkulaðihnetti. Ég fæ svoleiðis vatn í munninn þegar ég skrifa þessa færslu því þið sem mig þekkið vitið að „desrétturinn“ er mikilvægastur, hahaha!
Það er líka alveg magnað hvað það er alltaf pláss fyrir eftirrétt, eins og það sé auka hólf fyrir það, jommí nomm!
Ég mátti til með að skrifa stutta færslu um þennan dásemdar stað til að mæla með stoppi þar þegar þið eigið leið hjá Höfn. Það er örstutt þangað niðureftir frá þjóðveginum og vel þess virði að staldra við á þessum fallega veitingastað með ljúffenga matnum!