Hrekkjavökupartýhrekkjavaka

Í Leirvogstunguhverfinu okkar hér í Mosfellsbænum er alltaf mikið húllumhæ í kringum Hrekkjavökuna. Í ár var engin undantekning þar á og hafa minnsta mín og nokkrar vinkonur hennar labbað saman í grikk eða gott síðustu ár og við nokkrir foreldrar fylgjum enn með þó það muni eflaust breytast á komandi árum!

hrekkjavaka veitingar

Þær endast ekki í að ganga um allt hverfið og láta okkar götu duga, ganga frá húsi fyrstu vinkonu og í öll hús á milli að húsi þeirrar síðustu og þetta tekur yfirleitt ekki nema um klukkustund. Þá finnst þeim spennandi að fá að koma inn í hlýjuna og hafa „partý“ og höfum við foreldrarnir skipst á að taka slíkt að okkur. Þær fá þá eitthvað að borða, fá að kíkja aðeins í nammikörfuna sína og leika þar til háttatími er kominn þar sem skóli er næsta dag.

Partýið var hjá minni dömu í ár og ætlaði ég nú ekkert að setja færslu inn um þetta þar sem þetta voru allt fljótlegar reddingar. Þetta eru hins vegar fínar hugmyndir sem allir geta framkvæmt og við skulum muna að það er frekar viðburðurinn sem skiptir máli heldur en veitingarnar svo ég læt hér myndir tala sínu máli til að þið fáið hugmyndir. Ég skellti í nokkrar heimatilbúnar pizzur fyrr um daginn (bæði fyrir stelpurnar + foreldra) sem ég setti í ofninn um leið og við komum inn úr sníkjeríinu. Tók ekki einu sinni mynd af þeim en hér mætti allt eins rúlla út tilbúið pizzadeig og skella á það áleggi til að einfalda enn frekar.

hrekkjavaka

Við settum popp í nornapott og lakkrísreimar og hlauporma ofan í eftir að Inga vinkona gaf mér þá hugmynd í hrekkjavökuafmæli sonar síns um daginn.

hrekkjavaka veitingar

Draugasnakk og tilbúnar hrekkjavökusmákökur sem ég kom með heim frá USA í síðasta mánuði, tilbúnar sneiðar beint í ofninn, hahaha!

hrekkjavaka veitingar

Djúsþykkni, klakar og vatn verður miklu meira spennandi í fallegri krús og sérstaklega með nokkrum plastaugum ofan í til viðbótar.

hrekkjavaka veitingar

Köngulóadiskar, draugabox og servíettur frá Partýbúðinni slóu í gegn og ostapoppið stendur alltaf fyrir sínu!

hrekkjavaka veitingar

Ég setti síðan snakk og nammi í skálar og átti þetta hrekkjavökuskilti frá Hlutprent síðan fyrir einhverjum árum og stakk því ofan í snakkskálina.

hrekkjavökukaka

Kakan er besta skúffukaka í heimi í dulbúningi en að þessu sinni skreytt með plastaugum, nammiormum, sykuraugum og draugakerti. Köngulóarvefurinn er síðan gerður úr nokkrum bræddum sykurpúðum sem ég hrærði saman og teygði síðan úr yfir kökuna í nokkrum skömmtum.

hrekkjavaka veitingar

Síðan setti ég alls kyns hrekkjavökuskraut hingað og þangað um borðið og þær voru ægilega ánægðar með þetta allt saman elsku dúllurnar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun