Karabíska hafið og MexíkóVið komum heim úr þessari ævintýrareisu í byrjun janúar og loksins næ ég að setja saman myndir og koma mér í færsluskrif. Þetta var rúmlega þriggja vikna reisa, mikið skoðað og brallað svo þessi færsla verður löng! Ég hef skipulagt nokkrar svona ævintýrareisur eins og við köllum þær og að baki býr gríðarleg vinna. Ég veit ekki hversu margar klukkustundir hafa farið í ævintýraskipulag hjá mér í gegnum tíðina en mér leiðist það svosem ekki! Það eru hins vegar margir sem hafa áhuga á að vita allt um ferðalögin okkar og því deili ég með ykkur því sem ég kemst í að skrifa um til þess að þið getið eytt færri klukkutímum í þetta en ég, hahaha! Þeir sem hafa áhuga lesa því lengra en aðrir skrolla kannski bara yfir myndirnar, nú eða hlaupa bara yfir í næstu færslu, bara allt eins og hentar ykkur best!

Við vorum tvær fjölskyldur saman, í heildina 10 manns og mér finnst mikilvægt að vera búin að ganga frá öllum bókunum og stússi áður en haldið er í svona ferð þar sem ég tími ómögulega að eyða klukkustundum í slíkt þegar í fríið er komið, þá fer heilinn bara í „vacay mode“ sem ég elska og allt er ákveðið fyrirfram sem á að gera! Ég vona því innilega að þessi skrif nýtist þeim sem hyggja í ævintýrareisu, hvort sem hún verður eins og þessi að öllu leyti eða að hluta til!

Margir báðu mig um að setja inn upplýsingar um flug, hótel, afþreyingu, skemmtiferðarskipið og allt þar á milli svo hér kemur allt sem ég man eftir! „Happy reading“!

playa del carmen

Flugbókanir og akstursþjónusta

Þegar við höfum planað svona reisur er flugið alltaf fyrsta mál á dagskrá. Það er best að festa með eins góðum fyrirvara og hægt er því það hækkar hratt eftir því sem vikurnar/mánuðirnir líða. Flug frá Íslandi er yfirleitt hægt að festa með árs fyrirvara en síðan önnur millilandaflug erlendis opnast yfirleitt ekki fyrr en með 6-8 mánaða fyrirvara. Í reisum sem þessari finnst mér mikið öryggi í því að fá ferðaskrifstofu til að sjá um flugbókanir. Það kostar ekki mikið aukalega, þau finna oft betri fargjöld en maður sjálfur og flugin eru bókuð í einum miða svo þetta er minna stress á ferðalaginu. Einnig sjá þau um allar breytingar ef flugfélögin eru að vesenast í slíku sem er klárlega annar kostur!
Við pöntuðum að þessu sinni flug í gegnum Vita ferðaskrifstofu og hún Þorbjörg ferðaráðgjafi hjá þeim veitti okkur toppþjónustu og flugin okkar innan USA og til Mexíkó breyttust held ég fjórum sinnum frá því að við bókuðum og þar til við fórum svo það var sannarlega dýrmætt að hafa hana til að hugsa um allt það bras!

Við keyptum akstursþjónustu hjá fyrirtækinu Go Airport Shuttle og sóttu þeir okkur og skutluðu á milli flugvalla, hótela og skips í Fort Lauderdale og Miami, mælum með!

Sigling um karabíska hafið

Fort Lauderdale

Við flugum í gegnum NY til Fort Lauderdale og ákváðum að koma tveimur dögum fyrir brottför hjá skipinu til að hafa smá „buffer“ ef veðrið færi að stríða okkur og til að aðlagast aðeins tímamismuninum áður en við færum af stað. Þetta hefðu alveg mátt vera 3-4 dagar þessvegna því að ferðast um miðjan desember frá Íslandi getur verið ansi streituvaldandi, hahaha!

Við gistum á hóteli sem heitir Pelican Grand Beach Resort og það var bara mjög fínt. Myndi biðja um að vera ekki á jarðhæð og möst að hafa „sea view“ því hótelið er á ströndinni. Myndin hér fyrir ofan er tekin af svölunum okkar, hversu fallegt! Planið var að slaka bara á og njóta á hótelinu/ströndinni þennan eina heila dag sem við höfðum fyrir siglingu en auðvitað kom stormur í Flórída þegar Íslendingarnir mæta þangað, hahaha! Við leigðum því bíla og keyrðum í „moll“, pöntuðum Uber Eats, fórum á Ihop eins og sannir túristar og gerðum gott úr þessari rigningu!

Næsta dag vorum við síðan sótt eftir morgunmat og héldum að Port Everglades en þaðan siglir Royal Caribbean í Fort Lauderdale, þetta var um 10-15 mínútna akstur.

Karabíska hafið

Við fórum með Royal Caribbean á skipi sem heitir Odyssey of the Seas sem tekur um 5000 farþega. Öllu var vel stýrt og toppþjónusta hvert sem var litið að maður fann aldrei fyrir neinum þrengslum, bið né slíku!

Við bókuðum beint af USA síðunni þeirra en ég myndi mæla með að bóka í gegnum þá sem sjá um RC í Evrópu. Það var erfitt að eiga samskipti til að spyrja út í bókun/athuga með breytingar en hefði verið einfaldara ef við hefðum bókað í gegnum evrópsku síðuna svo hafið það endilega í huga ef ferðaskrifstofa/milliliður sér ekki um bókun fyrir ykkur.

Við vorum með tvö samliggjandi herbergi á dekki 11 fyrir hvora fjölskyldu með hurð á milli og létum opna á milli líka á svölunum. Það væsti því ekki um okkur þó svo maður sé nú frekar lítið inn á herbergi í svona siglingu, það er svo margt og mikið í boði um borð að maður tímir varla að fara að sofa, og maturinn maður minn, maður vill alltaf vera að borða því það er svo margt girnilegt, haha!
Ég fékk hjálp frá fylgjendum þegar við vorum að taka ákvarðanir með herbergjaval og að vera með svalir og vera á efri hæðunum var klárlega málið!

Fyrst fundum við vel fyrir rugginu í skipinu og ég var svo stressuð að einhver yrði sjóveikur. Það kom hins vegar ekki til og ruggið vandist eftir um sólarhring. Okkur fannst það síðan eiginlega bara vera orðið notalegt, sérstaklega þegar við lögðumst upp í rúm á kvöldin en gott að hafa þetta í huga og taka kannski sjóveikistöflur með ef þið mynduð fara að finna fyrir ógleði.

Internet og drykkjarpassar eru frekar dýr þjónusta sem þarf að kaupa aukalega svo ég myndi strax taka slíkt inn í myndina og kaupa hvorutveggja til að njóta sem best. Við keyptum reyndar bara internet á eitt tæki í hvoru herbergi upp á öryggið að gera en það var auðvitað alveg fínt að kúpla sig aðeins út úr slíku þessa viku meðan við vorum á skipinu. Líklega eina leiðin til að „kötta“ á það að maðurinn minn færi að kíkja á vinnu tölvupósta og svona þannig að það er ekki alslæmt að hafa ekki internet í öllum tækjum, hahaha!

Inga vinkona var búin að kaupa sérstakt plast og festingar fyrir innritunarmiða á töskurnar áður en við gengum um borð í skipið. Hún las þetta í einhverri umræðu og mikið sem það var gott að hafa þetta, töskurnar eru teknar niðri þegar maður kemur úr bílnum og síðan rúllað alveg upp að dyrum fyrir framan herbergið þitt þegar þú mætir!

Bahamas

Fyrsta stoppið okkar var á Bahamas. Þar á Royal Caribbean sína eigin eyju sem heitir Coco Cay. Þar er búið að útbúa vatnsleikjagarð, mismunandi strandir og alls konar afþreying í boði.

Við keyptum okkur inn í vatnsleikjagarðinn og í ferð til að synda með svínum, hahaha!

Það var klárlega upplifun að synda með svínum og síðan höfðu krakkarnir gaman að vatnsleikjagarðinum.

Ég meina, hver vill ekki synda og leika við svín, sem kannski skíta síðan á þig eða sparka fast með klaufunum í þig í leiðinni, muhahahaha!

Stóru stelpurnar fóru í Zip Line yfir garðinn sem var fjör á meðan sú litla hékk í öldulauginni og raðaði í sig mat úr hlaðborðinu, haha! Þegar komið er um borð í skipið aftur er síðan nóg um að vera fram á kvöld!

Grand Cayman

Stopp tvö var á Grand Cayman. Stoppin eru þannig að skipið kemur í höfn að morgni og fer aftur síðdegis svo ef þið bókið ykkur í ferðir ekki í gegnum síðu RC þá þarf bara að passa vel upp á komu- og brottfarartíma, því annars verðið þið bara eftir!

Við áttum pantaðan ævintýradag með Chrystal Charters þar sem til stóð að heimsækja Stingray City, Starfish Point og veiða fisk í einkatúr í um 4 klukkustundir. Þennan dag var hins vegar það mikill vindur norðan megin á eyjunni að öllum ferðum sem þessum, bæði á vegum RC og einkaaðila eins og okkar var aflýst. Ég græt enn að hafa ekki komist í þessa ferð svo ég mæli með að þið bókið hjá þeim ef þið eigið leið til George Town!

Við létum okkur hins vegar ekki leiðast og eyddum deginum á Seven Mile Beach sem er undurfalleg og röltum um miðbæinn í George Town. Við áttum síðan alltaf bókað borð saman í kvöldmat þar sem var þrírétta máltíð öll kvöld. Mismunandi þema var síðan í klæðaburði og við tókum þátt eftir fremsta megni, hahaha! Hér fyrir neðan var „Caribbean“ þema, kvöldinu áður var „All White“ og fleira skemmtilegt. Við fórum á ýmsar sýningar eftir mat og reyndum að prófa sem mest af þeirri afþreyingu sem var í boði um borð.

Jamaica

Þriðja og síðasta stoppið okkar var á Jamaica. Við bókuðum okkur í einkaferð um eyjuna og vorum sótt um morguninn. Við fórum í Blue Hole og River Tubing sem var mjög gaman, sérstaklega Blue Hole, svoooo falleg og mikið fjör! Við ætluðum síðan að koma við í Dunn’s River falls á bakaleiðinni en tíminn hljóp frá okkur þar sem öllum fannst svo gaman í Blue Hole svo við rétt náðum í skipið áður en það hélt úr höfn, hahaha!

Ferðina bókuðum við með Dream Tours og fengum yndislegan driver og „gæda“ svo það má sannarlega mæla með þeim, vonum bara þeir verði aðeins betri í tímastjórnun í næstu ferð, hahaha!

Gönguleiðin upp að Blue Hole var falleg og í miðjum frumskógi.

Okkur leiddist þetta í það minnsta alls ekki! Hægt var að hoppa út í á mörgum stöðum, fara í zip-line og sleppa takinu og krökkunum fannst þetta geggjað fjör! Á Jamaica er samt mikil fátækt, það var víða sorglegt að sjá umhverfið og bruna síðan bara um í sínum loftkælda einkabíl með mat og næsheit. Klárlega súrealískt og skrítið en um leið gott að átta sig á mismunandi menningu í heiminum og sjá hvað við Íslendingar höfum það gott.

River tubing var fjör og var mikið hlegið!

Síðasta daginn í skipinu var síðan allt prófað sem var eftir á „bucket“ listanum hjá hópnum og endað á góðu showi!

Morguninn eftir tékkuðum við út eftir góðan morgunverð, vorum sótt og skutlað á völlinn í Miami þaðan sem við flugum yfir til Cancun.

Mexíkó

Eftir að við bókuðum siglinguna vorum við ekki viss hvert við vildum fljúga næst. Uppi voru ýmsar hugmyndir, Orlando, Bahamas, Kúba, Curacao eða Mexíkó. Við hjónin ásamt elstu dóttur okkar komum til Mexíkó árið 2006 og vorum alveg til í að fara þangað aftur núna svo úllen, dúllen doff endaði með okkur þangað í jóla- og áramótafrí sem var dásamlegt, þrátt fyrir hrakfarir í upphafi, hahaha!

Við gistum á hóteli á Playa Del Carmen svæðinu sem er vinsæll staður fyrir túrista, öruggt umhverfi og gott fyrir fjölskyldur.

Hótel í Mexíkó

Eftir miklar pælingar og leit af hótelum yfir hátíðirnar (jól og áramót) tókum við ákvörðun um að nýta tilboð hjá Ocean Riviera Paradise sem er 5 stjörnu hótel á vegum H10 keðjunnar. Hótel eru mjög dýr á þessum tíma og fyrir okkur 10 sem gátum deilt þremur herbergjum (elstu börnin saman í einu) var eðlilegt verð fyrir tveggja vikna dvöl á bilinu 1,5-5 milljónir eftir hótelum! Þetta eru hins vegar allt „All inclusive“ hótel og flest 5 stjörnu, svo matur og drykkir eru inn í verðinu. Ocean Riviera er aðeins 6 ára gamalt hótel og lítur mjög vel út á myndum. Það voru hins vegar mismunandi „reviews“ um það, sumir mjög óánægðir á meðan aðrir sögðu að ekki ætti að hlusta á það og þetta væri æði, haha! Við ákváðum því að taka sjensinn því þeir voru með mjög gott tilboð þarna í upphafi árs þegar við vorum að bóka þetta og þegar valið stendur á milli tveggja hótela sem eru hlið við hlið og annað kostar fjölskylduna 1,5 og hitt 3 milljónir en með svipaðar umsagnir á netinu, þá eðlilega freistast maður til að bóka á því sem er ódýrara og með betri aðstöðu fyrir börnin!

Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja því fyrstu kynni okkar við þetta annars ágæta hótel voru ekki mjög góð. Herbergin voru að okkar mati skítug og illa lyktandi og enginn fimm stjörnu bragur fyrir okkur lúxusfólkið sem var nýkomið úr siglingu þar sem hreinlæti og þjónusta var upp á 10!

Auðvitað gerir maður ráð fyrir að fimm stjörnu hótel sé æðislegur lúxus svo þetta var klárlega skellur. Ég myndi segja þetta sé meira eins og 3,5 stjörnu hótel. Aðstaðan öll var reyndar til fyrirmyndar, fínir veitingastaðir í boði, gott snarl, hreint og fallegt allt úti og ströndin lítil og falleg. Við vorum í „Privilege“ álmunni sem veitti okkur aðgang að sér veitingastað/“room service“ og ég myndi alltaf mæla með því! Við fengum hins vegar herbergi á jarðhæð og ég held að það hafi verið vandamálið svona eftirá að hyggja. Það er auðvitað mikill raki á þessu svæði og hótelið byggt inn í frumskógi nánast og hugsa ég að herbergin á efri hæðunum séu ekki eins „soggy“ og þessi á jarðhæðinni. Eftir spjall við fólk á svæðinu virtist það almennt ánægt með sín herbergi svo ég vill meina að við höfum verið einstaklega óheppin með herbergi en get auðvitað ekki mælt með hótelinu fyrir vikið því ekki fengum við að prófa betri herbergi þar sem allt var pakkfullt á þessum tíma.

Þegar maður lendir í aðstæðum sem þessum er ekkert annað í stöðunni en að gera gott úr þeim. Við fengum rakatæki inn (sem við tæmdum um 3 lítra af vatni úr á hverjum degi), kvörtuðum mikið svo það voru heilu hreingerningarhóparnir sendir inn að gera allt fínt fyrir okkur svo þau reyndu sitt besta til að laga það sem við vorum ósátt með. Saggalykt, raka/myglu er þó ekki auðvelt að laga og var eitthvað sem við þurftum að sætta okkur við út dvölina. Mig grunar nú reyndar að þetta sé svona á fleiri hótelum sem eru staðsett á þessu svæði svo það er gott að hafa slíkt í huga þegar þið skoðið hótel. Biðja um herbergi hátt uppi, óska eftir rakatæki strax og þess háttar.

Það tók mig eins og tvo daga að sætta mig við þetta, var á algjörum bömmer að hafa valið þetta fyrir hópinn og að hafa „skemmt“ fríið fyrir öllum. Síðan þegar maður ákveður að leggja svona svekkelsi til hliðar og hafa gaman þá verður auðvitað gaman og dvölin á Mexíkó var alveg dásamleg restina af tímanum!

Við höfum áður ferðast saman yfir jólin og það er orðin venja hjá okkur að hafa leynivinaleik á jólunum. Þar drögum við nafnið hjá einhverjum í hópnum, fáum að kaupa gjöf fyrir ákveðna upphæð (alltaf bara eitthvað lítið), allir fara saman á ákveðinn stað að kaupa gjafir og laumupúkast í þessu og voða stuð. Krakkarnir völdu að fara í Walmart þetta skiptið og síðan áttum við skemmtilega kvöldstund þar sem pakkarnir voru opnaðir, hahaha!

Jólin okkar þetta árið!

Höfum líka átt verri áramót, tíhí!

Huldu fannst ekkert leiðinlegt að geta farið á barinn og veitingastaðina til að panta allt sem hún vildi! Nudd á ströndinni er síðan æðislegur lúxus fyrir nokkra þúsundkalla!

Miklar umræður hafa verið um þara á ströndum í Mexíkó en á þessum tíma sem við vorum þar var ströndin svo hrein og falleg! Hér er Hulda á röltinu beint fyrir framan hótelið okkar.

Leynivinurinn hennar Huldu hitti klárlega í mark á aðfangadag með þessum glimmer flamingo kút, hahaha!

Dagsferðir í Mexíkó

Við gerðum ótrúlega margt skemmtilegt á meðan við vorum í Mexíkó og hér fyrir neðan fer ég yfir þær dagsferðir sem við fórum í. Við bókuðum Tulum, Cozumel og Isla Mujeres með Kay Tours ferðaskrifstofunni og þar fengum við toppþjónustu! Allt var sérsniðið eftir okkar óskum, frábærir leiðsögumenn og mælum við mikið með! Veiðiferðina bókuðum við sjálf á hótelinu í gegnum söluaðila sem þar voru staðsettir og fór hluti hópsins í slíka. Höfrungaævintýrið með stóru stelpunum mínum bókaði ég síðan sjálf beint af síðunni hjá Dolphinaris Riveria Maya!

Cozumel

Þessi dagur var draumi líkastur. Við vorum sótt eldsnemma að morgni, keyrðum til Playa Del Carmen þar sem við tókum ferju yfir til Cozumel og þaðan fórum við í einkabát í snorklferð.

Við fengum frábæra leiðsögumenn sem gerðu handa okkur ceviche, ferskt guacamole og næsheit út á miðju karabíska hafinu!

Bestu ferðafélagarnir!

Sannkallaður draumadagur sem er algjört „möst“ ef þið eruð á þessum slóðum!

Við vorum flest með okkar eigin snorkl-grímur og þessar sem fara alveg yfir andlitið eru mjög næs! Þá getur maður andað með nefinu eða munninum og haft allt andlitið hulið, mér fannst það allavega geggjað!

Tulum

Næsta ferð sem við fórum í var til Tulum og nágrennis. Við byrjuðum í Akumal þar sem við snorkluðum með skjaldbökum, það var æði!

Svo flottar!

Eftir skjaldbökuleiðangur var ferðinni heitið í „cenotes“ eða svokallaða hella og Mayan Village þar sem við fórum í zipline, á kajak, lékum okkur í nokkrum mismunandi hellum og fengum dýrindis mat sem eldaður var í miðjum frumskógi, algjörlega dásamleg upplifun!

Elín Heiða ofurhetja!

Hulda Sif fór meira að segja alein í zipline! Ég náði bara ekki mynd af henni því ég var svo stressuð þegar ég ýtti henni af stað, hahahaha!

Ó þetta var ævintýralegur dagur og klárlega eitthvað sem við myndum mæla með! Við elskum líka að skoða ólíka náttúru og menningu þegar við erum að ferðast!

Isla Mujeres

Það var eitthvað við þessa ferð sem gerði hana dásamlegri en aðrar. Hinar voru ekkert síðri en það var eitthvað sem gerði þennan dag að besta degi ferðarinnar að mínu mati!

Bæði á Cozumel og Isla Mujeres er sjórinn kristaltær og túrkísblár. Þetta eru með fallegustu stöðum heims til þess að snorkla og mér leið eins og ég væri að svamla um í fiskabúri á köflum!

Á svona dögum er lagt snemma af stað svo allir eru lúnir að ferð lokinni en um leið fullir af hamingju og með nýjar minningar til að ylja sér við!

Veiðiferð

Víst við misstum af veiðinni á Grand Cayman ákvað hluti af hópnum að skella sér í slíka ferð frá hótelinu. Þau fóru af stað við sólarupprás og veiddu alls kyns fiska og skemmtu sér konunglega, og fengu auðvitað aftur ferskt ceviche!

Höfrungaævintýri

Að synda með höfrungum er eitthvað sem okkur finnst gaman. Harpa og Elín hafa báðar farið áður og langaði núna að prófa „foot push“ en þar fer höfrungurinn með nebbann undir fæturnar á þeim og lyftir þeim upp á sundi.

Við keyptum hjá þeim myndapakka og fengum svo margar skemmtilegar myndir frá þessu ævintýri!

Að auki við ofangreindar skipulagðar ferðir fórum við í dagsferð til Playa Del Carmen á 5th Avenue, í Parasailing, nudd á ströndinni og fleira skemmtilegt!

Það voru ljósmyndrarar á vappi á hótelinu reglulega með mismunandi dýr og við Harpa Karin ákváðum að endurgera mynd frá því árið 2006 og við vorum síðast á Mexíkó, hahaha!

Ég set punkt við ferðasöguna núna en hér fyrir neðan eru síðan fleiri hagnýtar upplýsingar.

Alls konar

Passar: Það er mikilvægt að huga að því að allir passar séu í gildi nógu lengi, til dæmis í 6 mánuði eftir heimkomu ef þið eruð að fara til USA!

Bólusetningar: Hægt er að fara inn á Heilsuveru og óska eftir bólusetningarplani. Þá setjið þið inn alla áfangastaðina sem verða heimsóttir og fáið uppgefið hvaða bólusetningar þarf að hafa. Þetta er mikilvægt að gera í tíma því það þarf að tímastilla bólusetningar af í takt við ferðadaga.

ESTA: Muna að græja ESTA í tíma ef þið farið í gegnum USA.

Bóka bíl í geymslu: Ég elska að nýta mér þjónustu Suðurbón/Lagningar þegar við ferðumst. Ég bóka alltaf alþrif á bílinn og geymslu og það er fátt dásamlegra en að geta stigið upp í heitan og hreinan bíl við komuna til landsins!

Suðurbón

Ef þið viljið vita eitthvað meira um ferðina okkar ekki vera feimin að senda mér línu á gotteri@gotteri.is og ég skal gera mitt besta til að svara ykkur!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun