
Marsípan, marsípan, marsípan! Ég fæ sko aldrei leið á marsípani og elska að leika mér með þetta hráefni. Hér eru á ferðinni gamaldags möndluhorn eins og fengust einu sinni í bakaríum landsins. Guð hvað ég sakna þess að fá hvergi svona marsípanbita, nema auðvitað í IKEA en þangað er bara stundum svolítið langt að keyra þegar maður býr í Mosfellsbæ. Því er tilvalið að útbúa svona lagað sjálfur og eiga í frystinum til að grípa í þegar löngunin hellist yfir.

Það er mjög einfalt að útbúa þessi horn, tekur alls ekk langan tíma og þau eru sko sannarlega fullkominn sætur biti, hvort sem það er með kaffinu eða í eftirmat.

Möndluhorn uppskrift
Uppskrift dugar í 32 horn
- 750 g Odense marsípan (þetta bleika)
- 200 g möndlumjöl
- 280 g flórsykur
- 2 eggjahvítur + 1 til að pensla með
- 1 tsk. möndludropar
- ¼ tsk. salt
- 150 g möndluflögur
- 150 g Odense dökkir súkkulaðidropar
- 150 g Odense hvítir súkkulaðidropar
- 150 g Odense súkkulaðidropar með karamellu
- Setjið allt saman í hrærivélarskálina og blandið saman með K-inu.
- Hnoðið síðan aðeins í höndunum, plastið og kælið í að minnsta kosti 2 klukkustundir (líka í lagi að geyma yfir nótt, þessvegna í nokkra daga).
- Hitið ofninn í 175°C.
- Skiptið deiginu niður í 4 ílanga hluta og síðan hverjum slíkum í 8 parta svo úr verði 32 stykki að svipaðri stærð.
- Rúllið kúlu úr hverjum bita sem síðan þið rúllið út í pylsu sem er aðeins mjórri til endanna.
- Sveigið þá pylsuna í skeifu, penslið með eggjahvítu og þjappið möndluflögum ofan á og á hliðarnar, leggið á bökunarplötu.
- Bakið í 13-15 mínútur og leyfið alveg að kólna áður en þið dýfið í súkkulaðið.
- Bræðið hverja tegund af súkkulaði í sér skál og dýfið endunum ofan í og leggið á bökunarpappír þar til súkkulaðið storknar.

Þið þekkið Odense marsípanið á bleiku umbúðunum.

Súkkulaðidroparnir frá Odense eru æðislegir og gaman að dýfa hornunum í mismunandi bragðtegundir.

Mér þætti vænt um ef þið mynduð líka fylgjast með á INSTAGRAM