
Tiramisu er eftirréttur sem slær alltaf í gegn, alls staðar! Því ekki að prófa að gera úr honum köku, köku sem þarf ekki einu sinni að baka!

Að þessu sinni einfaldaði ég kökugerðina með Tiramisu dufti í poka frá Dr. Oetker og ég er að segja ykkur það, þetta er alveg eins og Tiramisu sem maður fær á veitingastöðum og súpereinfalt að gera!
Hér fyrir neðan finnið þið uppskrift ásamt aðferð. Það er lítið mál að baka svampbotn en ég var á smá hraðferð þegar ég var að gera þessa tilraun og stytti mér leið með því að kaupa þrískiptan tilbúinn svampbotn í Krónunni og það var algjör snilld! Það er því hægt að einfalda þessa uppskrift enn frekar ef þið viljið með því að gera það!

Tiramisu kaka uppskrift
- 1 x svampbotn (sjá uppskrift að neðan)
- 2 x poki af Tiramisudufti frá Dr.Oetker
- 500 ml léttmjólk
- 150 ml sterkt kaffi
- Bökunarkakó
- Skerið svampbotninn í 3 hluta (líka í lagi að taka hann bara í tvennt).
- Þeytið Tiramisuduft og mjólk saman samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
- Takið til smellu af smelluforminu eða setjið kökuplast utan um fyrsta kökubotninn.
- Skvettið um 50 ml af kaffinu með skeið yfir allan botninn.
- Næst má smyrja um 1/3 af Tiramisublöndunni yfir botninn og endurtaka þetta tvisvar sinnum í viðbót ef þið skáruð botninn í þrennt (annars skiptið þið kaffi og Tiramisublöndu bara til helminga ef þið tókuð botninn í tvennt).
- Kælið í að minnsta kosti 5 klukkustundir eða yfir nótt.
- Smellið forminu af eða flettið kökuplastinu burt, sigtið bökunarkakó yfir allt og njótið.
Svampbotn uppskrift
- 3 egg
- 100 g sykur
- 45 g hveiti
- 45 g kartöflumjöl
- 1 ½ tsk lyftiduft
- Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljóst.
- Sigtið saman hveiti, kartöflumjöl og lyftiduft og bætið varlega saman við.
- Smyrjið um 22 cm smelluform vel og setjið bökunarpappír í botninn, bakið við 175°C í um 12-15 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
- Kælið alveg og takið síðan í 2-3 hluta með kökuskera.

Það er ofureinfalt að útbúa þessa dásemd og mæli ég með því að þið prófið næst þegar ykkur vantar fallegan og gómsætan eftirrétt! Tiramisu duftið fæst í Fjarðarkaup, Heimkaup, Melabúðinni, Versluninni Hlíðarkaup og Kaupfélagi V-Húnvetninga.

Ég kældi kökuna yfir nótt og losaði kökuplastið síðan utan af og sigtaði bökunarkakó yfir allt næsta dag og namm hún var sko góð!
