
Við erum alls ekki nógu dugleg að borða fisk og þegar við gerum þessa undursamlegu bleiku, góðan fiskrétt í ofni eða annað spyr ég mig alltaf af hverju við gerum það ekki oftar. Það er svo létt og gott að fá sér fisk og við þurfum að taka okkur á í þeim efnum. Ég hef í það minnsta hugsað um þennan rétt frá því ég grillaði hann um daginn því þessi bleikja er alveg hrikalega góð grilluð í teriyaki sósu, namm!

Mmmmm……

Það má klárlega segja það að mánudagsfiskurinn hafi verið færður upp á annað „level“ og nú hvet ég ykkur til að prófa þessa dásamlegu uppskrift!

Teriyaki bleikja á grillið
Fyrir um 4 manns
Bleikja uppskrift
- 4 bleikjuflök (um 900 g)
- Teriyaki sósa með ristuðum hvítlauk (ég notaði frá Kikkoman)
- Pipar
- Búið til álpappírsvasa fyrir hvert flak með því að leggja flak á tvöfaldan álpappír sem klemmdur er saman á endunum og opinn að ofanverðu.
- Hellið nokkrum matskeiðum af Teriyaki sósu yfir hvert flak svo hún fljóti aðeins yfir og til hliðanna, piprið örlítið.
- Grillið á vel heitu grilli í um 8 mínútur.
Köld grillsósa uppskrift
- 1 ½ dós sýrður rjómi (270 g)
- 5 msk. sweet chili sósa
- 1/3 agúrka
- 1 msk. kóríander
- Pískið saman sýrðan rjóma og sweet chili sósu.
- Skerið agúrku niður í litla teninga og setjið yfir sósuna þegar hún er komin í fallega skál, stráið ferskum kóríander yfir og geymið í kæli fram að notkun.

Naan brauð á grillið
- 4 lítil naan brauð
- Fetaostur
- Rifinn ostur
- Setjið brauðin á álbakka og síðan fetaost og rifinn ost eftir smekk yfir.
- Grillið á lokuðu grilli í örfáar mínútur eða þar til osturinn er bráðinn.

Annað meðlæti
- Bakaðar kartöflur með smjöri og salti
- Salat með jarðarberjum og fetaosti

Ég fékk hugmyndina af þessum rétti fyrir um tuttugu árum síðan hugsa ég í matreiðsluþætti í sjónvarpinu. Mig minnir það hafi verið Rikka sem var með grillþætti og hún útbjó eitthvað í þessum dúr sem ég hef síðan þróað og gert reglulega í gegnum árin.