Ég hef útbúið þær ófáar ostakökurnar í gegnum tíðina og finnst mér mikill kostur að þurfa ekki að baka þær. Einu sinni var ég smeyk við matarlímið en eftir að ég byrjaði að nota það áttaði ég mig á því að það er ekkert mál og alls ekkert til að hræðast. Það má auðvitað alveg sleppa því en þá þarf að setja kökuna í stóra skál/fat eða mörg minni glös því hún mun ekki ná að standa stíf og falleg án þess. Þessi kaka var smá tilraunastarfsemi hjá mér sem lukkaðist afar vel. Appelsínukeimurinn alveg dásamlegur og þessi samsetning skemmtileg tilbreyting fyrir bragðlaukana.

Þessa uppskrift er að finna í bókinni minni, Saumaklúbburinn en þar eru yfir 140 gómsætar uppskriftir!

Ostakaka uppskrift
Botn
- 1 pakki Lu Bastogne Duo kex
- 40 g smjör
- Matarolíusprey
- Myljið kexið í matvinnsluvél, bræðið smjörið og hrærið saman.
- Klæðið um 20 cm breitt smelluform með bökunarpappír í botninn.
- Spreyið matarolíuspreyi allan hringinn að innan og þjappið kexinu í botninn og upp á hliðarnar.
- Kælið á meðan fyllingin er útbúin.
Fylling
- Safi og börkur úr einni appelsínu
- 4 matarlímsblöð
- 500 g rjómaostur við stofuhita
- 180 g sykur
- Fræ úr einni vanillustöng
- 200 g hvítt Toblerone
- 250 ml þeyttur rjómi
- Leggið matarlímsblöðin í bleyti í kalt vatn í um fimm mínútur.
- Setjið appelsínusafa og börk í lítinn pott (ég náði um 140 ml appelsínusafa úr einni appelsínu).
- Hitið að suðu, lækkið svo niður hitann og vindið matarlímsblöðin út í safann, eitt í einu og hrærið vel á milli. Hellið í aðra skál og leyfið að ná stofuhita á meðan annað er undirbúið.
- Bræðið Toblerone og leyfið hitanum aðeins að rjúka úr.
- Þeytið saman rjómaost, sykur og fræ úr vanillustöng, skafið niður á milli.
- Bætið bræddu Toblerone ásamt appelsínublöndunni varlega saman við.
- Að lokum má vefja þeytta rjómanum saman við þar til vel blandað.
- Hellið fyllingunni yfir kexbotninn og kælið í að minnsta kosti 3 klukkustundir eða yfir nótt (þá er gott að plasta formið).
- Þegar kakan hefur verið í kælinum er gott að renna rökum hníf meðfram hliðunum til að hún festist ekki við formið, smella hliðunum frá og losa botninn með stórum hníf/spaða/kökulyftara.
- Fallegt er að setja kökuna á kökudisk og skreyta með ferskum blómum eða því sem ykkur dettur í hug.

Mmmm, mæli með að þið prófið hana þessa!

Lu kexið passar einstaklega vel með appelsínubragðinu og minnir örlítið á jólin.
