Það er fátt betra en nýbakaðar súkkulaðibitakökur og ísköld mjólk. Það tekur örskamma stund að útbúa þessar dásemdar kökur og eru þær bestar ylvolgar á meðan súkkulaðið hefur ekki náð að storkna aftur, mmmmmm!

Þær voru í það minnsta fljótar að hverfa á þessu heimili og alveg góður lítri af mjólk líka, tíhí!

Súkkulaðibitakökur uppskrift
Uppskrift gefur um 18-20 stykki
- 130 g smjör við stofuhita
- 240 g púðursykur
- 1 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- 40 g bökunarkakó
- 180 g hveiti
- ½ tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 150 g dökkir súkkulaðidropar + meira til skrauts (um 50 g í viðbót)
- Sjávarsalt
- Hitið ofninn í 175°C.
- Þeytið smjör og púðursykur þar til létt og ljóst.
- Bætið eggi og vanilludropum saman við og þeytið áfram, skafið niður á milli.
- Hrærið kakó, hveiti, matarsóda og salt saman í skál og setjið saman við smjörblönduna og blandið stutta stund.
- Að lokum má setja súkkulaðidropana saman við og blanda saman við deigið með sleikju.
- Takið þá væna matskeið/kúlu af deigi og raðið á tvær bökunarplötur íklæddar bökunarpappír með gott bil á milli.
- Bakið í 11-13 mínútur eða þar til kantarnir fara aðeins að dökkna.
- Takið úr ofninum og setjið nokkra súkkulaðidropa ofan á hverja köku á meðan þær eru enn heitar og leyfið að bráðna niður í kökuna.
- Stráið smá sjávarsalti yfir allt í lokin sé þess óskað.

Ég er reyndar alveg á því að svona kökur og allar smákökur á bara að borða jafnóðum og frekar baka minna og oftar. Smákökur og súkkulaðibitakökur eru svo mikið betri ennþá aðeins volgar!

Mmmm…..
