Heimagerður sjeik er einföld og ódýr lausn fyrir kósýkvöldið, nú eða komandi sumardaga! Jarðarberjaísinn frá Häagen-Dazs er uppáhalds ís margra hér á heimilinu svo þessi sjeik hitti klárlega í mark hjá mínu fólki!

Það er síðan gaman að skreyta glasið með því að setja smá súkkulaðisósu og hnetur á kantinn á glasinu og líka jarðarber og banana á grillprik og stinga ofan í, því má hins vegar að sjálfsögðu sleppa. Sjeikinn einn og sér er dásamlegur hvort sem glasið er skreytt eða ekki.

Hér fyrir neðan sjáið þið hversu einfalt er að útbúa þessa dásemd!
Jarðarberja- og bananasjeik
Uppskrift dugar í um 3 glös
- 600 g Häagen-Dazs jarðarberja ís, 1 ½ dós
- 1 banani
- 330 ml nýmjólk
- Súkkulaðisósa
- Hnetukurl
- Þeyttur rjómi
- Jarðarber og bananasneiðar
- 3 grillprik
- Útbúið ávaxtaprikin með því að raða jarðarberjum og bananasneiðum upp á langt grillspjót, raðið efst á spjótið og niður um 1/3 hluta þess, geymið.
- Þeytið rjómann og setjið í sprautupoka eða hafið rjóma tilbúinn í rjómasprautu.
- Dýfið hverju glasi í súkkulaðisósu og veltið upp úr hnetukurli, sprautið einnig smá súkkulaðisósu inn á hliðar glassins.
- Setjið næst ís, mjólk og banana í blandara og blandið vel.
- Skiptið sjeiknum niður í glösin og toppið með þeyttum rjóma og smá hnetukurli.
- Stingið ávaxtaprikinu í glasið og njótið!
