Þegar við vorum að ferðast um Washington ríki í sumar fórum við meðal annars á Great Wolf Lodge sem er skemmtilegt úlfa-þemahótel sem stelpurnar elska. Það er víðs vegar um Bandaríkin en við höfum alltaf bara farið í Grand Mound í WA.

Í sumar pantaði ég grillaðan kjúkling á einum af veitingastöðunum þar og fékk í fyrsta sinn „Creamy Corn“ eða rjómakennt korn/maís sem var alveg hrikalega gott. Þetta var meðlæti með kjúklingnum ásamt kartöflumús og ég er búin að ætla að prófa að leika þetta eftir síðan ég kom heim. Það hafðist loks og þetta var algjört dúndur!

Sósusjúka ég hefði þó ekki slegið hendinni á móti smá rauðvíns- eða soðsósu þarna með! Maísinn er djúsí í rjómanum og kemur algjörlega í stað sósunnar en þið sem elskið sósur, jafnvel með skeið til hliðar…..skiljið hvað ég er að meina, haha!

USA kjúklingur
Fyrir 4-6 manns
Grillaður kjúklingur uppskrift
- 6 stk. kjúklingalæri með legg (keypti þessi í Bónus)
- Ólífuolía
- Organic Liquid kryddlögur með hvítlauk
- Kjúklingakrydd
- Hitið ofninn í 210°C.
- Penslið ofnskúffu með ólífuolíu og raðið lærunum þar ofan í.
- Berið þunnt lag af ólífuolíu á hvert læri og einnig Organic Liquid hvítlaukslög (um ½ tsk. á hvora hlið).
- Kryddið vel með kjúklingakryddi á báðum hliðum.
- Eldið í 40-45 mínútur og leyfið að standa í 5-10 mínútur áður en skorið er í kjötið.
Kartöflumús uppskrift
- 1,2 kg kartöflur (gular eða bökunar)
- 40 g smjör
- 2 msk. sykur
- 1 tsk. salt
- 200 ml nýmjólk
- Sjóðið kartöflurnar í söltu vatni (2 tsk.salt). Mér finnst best að flysja þær fyrst og skera til helminga (í fernt ef þið eruð með bökunarkartöflur) því þá eru þær tilbúnar í hrærivélina um leið og þær eru mjúkar.
- Setjið kartöflur, smjör, sykur og salt í hrærivél og blandið á lágum hraða með K-inu. Bætið mjólkinni saman við í litlum skömmtum. Bætið við mjólk ef þið viljið þynnri mús.
Rjómakenndur maís uppskrift
- 6 heilir ferskir maískólfar (um 650 g maískorn þegar búið er að skera af stönglunum)
- 100 g smjör
- 30 g hveiti
- 250 ml matreiðslurjómi
- Salt og pipar
- 1 tsk. Organic Liquid kryddlögur með hvítlauk
- 1 msk. hunang
- Skafið maískornin af stönglunum og steikið við meðalháan hita upp úr smjörinu, saltið og piprið og leyfið að malla/eldast í um 5 mínútur.
- Hrærið hveitinu næst saman við og hellið svo rjómanum út á pönnuna, hækkið hitann í smá stund og hrærið vel allan tímann. Þegar blandan þykknar má lækka alveg niður hitann og krydda með Organic Liquid, salti og pipar eftir smekk ásamt því að hræra hunanginu saman við.

Þessi fljótandi krydd eru algjör snilld, er búin að vera að prófa þau í ýmsa matseld og virkilega skemmtileg og bragðgóð tilbreyting frá hefðbundnum kryddum! Þau fást í Fjarðarkaup, Melabúðinni, Kaupfélagi Skagfirðinga, Heilsuhúsinu og víðar!

Það er líklega fátt meira amerískt en ein ísköld Stella með svona mat en ég hugsa þetta sé einn vinsælasti bjórinn í Bandaríkjunum, að minnsta kosti í Seattle og nágrenni, haha. Ég man svo vel þegar ég gat bara keypt kassa af Stellu í Costcoferðinni á $19.99, það er af sem áður var, hahaha!