Svínalund er herramanns matur! Svínið fellur oft í skuggann af nautinu eða lambinu en ef svínalundin er elduð rétt verður hún mjúk og safarík, toppuð með Caj P grillolíu verður hún síðan fullkomin!

Gummi systursonur minn var akkúrat að koma í bæinn og var hjá okkur í mat og voru þeir Hemmi sammála um að þetta væri alveg frábærlega gott. Bjórmarineringin gerði hana silkimjúka og virkilega djúsí!

Bjórmarineruð svínalund á grillið
Fyrir um 4-6 manns
Grilluð svínalund uppskrift
- 1 kg svínalund
- 2 msk. salt
- 1 flaska Stella Artois bjór
- Steikarkrydd
- Caj P Smokey Hickory grillolía
- Sinuhreinsið svínalundina og þerrið hana vel.
- Saltið og nuddið saltinu vel inn í vöðvann.
- Setjið í eldfast mót/annað ílát og hellið bjórnum yfir svo hann þeki lundirnar.
- Plastið vel og leyfið að marinerast yfir nótt helst (nokkrar klukkustundir duga samt til).
- Takið lundirnar úr bjórleginum og þerrið að nýju.
- Kryddið með góðu steikarkryddi og setjið á vel heitt grill.
- Penslið nokkrum sinnum með Caj P grillolíu á meðan kjötið eldast. Takið af grillinu þegar kjarnhiti er 65° og leyfið kjötinu að standa í að minnsta kosti 15 mínútur áður en þið skerið það niður.
- Berið fram með bökuðum kartöflum, grænmetisspjótum (sjá uppskrift hér að neðan) og kaldri sósu (sjá uppskrift hér að neðan).

Grænmetisspjót uppskrift
- Ferskur maís (um 2 stk skorinn niður)
- 1 rauðlaukur
- 1 rauð paprika
- Um 10 sveppir
- Caj P Smokey Hickory grillolía
- Skerið grænmetið niður og raðið á grillspjót.
- Penslið með Caj P og grillið á meðalháum hita í um 15 mínútur, snúið reglulega.

Köld sósa uppskrift
- 150 g majónes
- 150 g sýrður rjómi
- 2 rifin hvítlauksrif
- 1 msk. Sriracha sósa
- Salt og pipar eftir smekk
- Tabasco sósa eftir smekk
- Pískið allt saman og geymið í kæli fram að notkun.

Hægt er að stýra því hversu sterk sósan verður með því að setja minna/meira af Tabasco í hana!

Bakaðar kartöflur, köld sósa og grænmetisspjót fóru einstaklega vel með kjötinu og ekki skemmdi ísköld Stella fyrir!
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan!