Sunnudagsmatur⌑ Samstarf ⌑
Sunnudagsmatur hugmyndir

Haustið fær mig alveg til að skipta um gír í eldhúsinu og elda eitthvað meira kósý og „comfy“! Hér er á ferðinni einfaldur og æðislegur sunnudagsmatur, grilluð nautalund, bakaðar kramdar kartöflur og ljúffeng rauðvínssósa með sveppum, njótið!

Rauðvínssósa með sveppum

Þessi máltíð var algjört dúndur og það þurfti nákvæmlega ekkert annað meðlæti en þetta! Ég bakaði heila hvítlauka með líka þar sem þeir fóru bara í ofninn aðeins á undan kartöflunum og það var mjög gott.

Kramdar kartöflur og grillað naut

Sunnudagsmatur

Fyrir um 4-6 manns

Grilluð nautalund uppskrift

 • Um 800 g nautalund
 • 150 ml soyasósa
 • Smá smjör
 • Svartur pipar
 1. Snyrtið lundina og marinerið hana í soyasósunni í um 30-45 mínútur.
 2. Grillið síðan á vel heitu grilli þar til óskuðum kjarnhita er náð, við tökum okkar af grillinu í um 52-55°C og leyfum að standa í um 10 mínútur áður en skorið er.
 3. Þegar lundin er að verða tilbúin má nudda hana aðeins með smjöri og síðan pipra hana eftir að hún er tekin af grillinu.

Rauðvínssósa uppskrift

 • 300 g kastaníusveppir
 • 40 g smjör
 • 2 hvítlauksrif
 • 150 ml rauðvín
 • 350 ml vatn
 • 2 x TORO rauðvínssósa (duftið)
 • 1 msk. fljótandi nautakraftur
 • 1 tsk. saxað ferskt timian
 • Salt, pipar, cheyenne pipar
 1. Skerið sveppina gróft niður og steikið upp úr smjöri við meðalháan hita.
 2. Rífið hvítlauksrifin saman við þegar sveppirnir fara aðeins að mýkjast og kryddið eftir smekk með salti og pipar.
 3. Þegar allur safi hefur gufað upp af sveppunum má hækka hitann, hella rauðvíninu saman við og leyfa því að sjóða stutta stund, lækka síðan hitann og leyfa því aðeins að gufa upp.
 4. Bætið þá vatninu saman við og báðum sósupökkunum, náið aftur upp suðu og lækkið hitann síðan vel, hrærið reglulega í sósunni og leyfið henni að malla.
 5. Bætið timiani við og kryddið til með nautakrafti, cheyenne pipar, salti og pipar.
Einföld rauðvínssósa

Kramdar kartöflur

 • Um 900 g kartöflur (nýjar íslenskar ef þær eru til)
 • Ólífuolía
 • Salt, pipar, hvítlauksduft
 1. Hitið ofninn í 210°C.
 2. Sjóðið kartöflurnar fyrst, kælið þær aðeins og penslið ofnskúffu með ólífuolíu.
 3. Raðið kartöflunum í ofnskúffuna og kremjið niður með kartöflustappara/spaða.
 4. Penslið kartöflurnar næst með ólífuolíu og kryddið eftir smekk.
 5. Bakið í 20-25 mínútur eða þar til þær verða aðeins stökkar að utan.
hvernig á að grilla nautalund

Bakaður hvítlaukur

 • Heill hvítlaukur
 • Ólífuolía
 1. Flysjið allt það lausa utan af hvítlauknum.
 2. Skerið neðan af honum um ½ cm til að opna vel fyrir alla geira.
 3. Setjið inn í álpappír, skvettið smá ólífuolíu yfir, lokið inni í álpappír og bakið við 210°C í um 40 mínútur.
Einföld sósa

Ég elska að stytta mér leið í sósugerð með pakkasósu þegar útkoman verður dásamleg líkt og í þessu tilfelli!

Kramdar kartöflur uppskrift

Mmmm þetta var svo góður matur!

Grilluð nautalund með rauðvínssósu

Ef það er afgangur af nautalund má til dæmis nota hann næsta dag í núðlurétt, roastbeef samloku eða annað sniðugt!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun