Maður tekur að sjálfsögðu þátt í nýjasta „trendinu“ sem fer eins og eldur um sinu um netheima. Um er að ræða svokallað „Butter Board“ en ég ákvað að þýða þetta bara beint yfir og kalla smjörbretti, hahaha!

Þetta er svipuð pæling eins og rjómasostaborðið sem ég gerði um daginn og sló heldur betur í gegn.
Það tekur smá tíma að baka hvítlaukinn en þá má gera með fyrirvara og að setja saman réttinn tekur þá enga stund og nammi, nammi, namm! Þetta var alveg geggjað.

Smjörborð
- 150 g smjör við stofuhita
- 2 heilir hvítlaukar
- Hvítlaukskrydd/Bruschetta krydd
- 50 g ristaðar Til hamingju pekanhnetur
- 1 tsk. saxað ferskt rósmarín
- Baguette brauð
- Hitið ofninn í 200°C.
- Skerið um ½ cm ofan af hvítlaukunum, skvettið smá ólífuolíu yfir, pakkið inn í álpappír og bakið í 40 mínútur.
- Saxið pekanhneturnar gróft niður og ristið á pönnu, geymið.
- Þegar hvítlaukurinn er tilbúin má leyfa hitanum aðeins að rjúka úr honum og síðan setja saman smjörborðið. Gott að skera baguette brauðið niður á meðan og rista í ofninum áður en slökkt er á honum.
- Skerið brauðið niður í þunnar sneiðar, penslið/skvettið smá ólífuolíu yfir sneiðarnar og ristið við 200°C í nokkrar mínútur eða þar til þær verða aðeins stökkar að utan, takið þá út.
- Samsetning: Smyrjið smjörinu á bretti/bakka, kreistið hvítlaukana yfir, stráið kryddi yfir allt saman, næst ristuðum pekanhnetum og loks smá rósmarín.
- Njótið með ristuðu baguette brauði.

Í raunninni er þetta bara eins og lúxus kryddsmjör, sett fram á fallegan máta og það er um að gera að leika sér með það sem fer ofan á. Ristaðar pekanhnetur gáfu þessu gott kröns og pössuðu vel með hvítlauknum.
