Smákökur, smákökur, smákökur, við hreinlega fáum alls ekki nóg af þeim! Þessar hér eru dásamlegar „Sugar Cookies“ eins og við þekkjum frá Ameríkunni.

Við stelpurnar keyptum oft tilbúnar, skornar svona kökur með mynstri eftir árstíðum í Target, Safway eða víðar og skelltum í ofninn. Við vorum allar á sama máli með að þessar líktust þeim óneitanlega mikið! Í sumar leituðum við að þannig til að taka með heim en fundum engar svo nú höfum við búið til okkar eigin!

Vanillukökur uppskrift
Um 60 stykki
- 340 g smjör við stofuhita
- 400 g sykur
- 4 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- 600 g hveiti
- 2 tsk. lyftiduft
- 1 tsk. salt
- Dr. Oetker hvítur glassúr
- Dr. Oetker jóla kökuskraut
- Þeytið sykur og smjör þar til blandan verður létt og ljós.
- Bætið eggjum og vanilludropum saman við, hrærið og skafið niður á milli.
- Blandið hveiti, lyftidufti og salti að lokum saman í skál og setjið saman við smjörblönduna.
- Hnoðið deigið aðeins í höndunum, setjið í skál/plast og kælið í að minnsta kosti 2 klukkustundir (eða yfir nótt). Deigið er frekar klístrað og þannig á það að vera.
- Hitið ofninn í 200°C og gerið bökunarplötur með bökunarpappír tilbúnar.
- Takið ¼ af deiginu í einu til að vinna með og fletjið út á vel hveitistráðum fleti.
- Skerið út kökur sem eru um ½ cm að þykkt og bakið í 6-8 mínútur eða þar til þær fara aðeins að gyllast.
- Kælið og skreytið að vild með glassúr og kökuskrauti.

Glassúr og kökuskraut frá Dr.Oetker einfaldar skreytingarnar til muna!

Mmmm, þessar eru svo góðar! Mæli með að þið prófið, líka sniðugt að gera svona kökur í bland við piparkökurnar og skreyta síðan saman.
