
Það er sko lítið mál að útbúa sínar eigin kókosbollur! Það má gera þær með nokkurra daga fyrirvara og geyma í kæli ef veisla er í vændum…..já, við erum alveg að fara að halda veislur aftur, guði sé lof!

Oftast eru flødeboller með nokkurs konar „sugar cookie“ í botninum en að þessu sinni notaði ég Póló kex og það smellpassaði með þessu og einfaldaði verkið til muna!

Heimagerðar kókosbollur með kexbotni uppskrift
18 stykki
- 1 poki Dr.Oetker flødebolleskum
- 100 ml sjóðandi vatn
- 2 tsk. vanilludropar
- 18 stykki Póló kex frá Frón
- 400 g suðusúkkulaði
- 2 msk. ljós matarolía
- Dr.Oetker kökuskraut og kókosmjöl
- Setjið flødebolleskum í stóra skál og hellið sjóðandi vatni og vanilludropum saman við.
- Þeytið í 3-4 mínútur eða þar til topparnir halda sér vel (eru stífþeyttir).
- Notið stóran stjörnustút og sprautupoka til að sprauta vænum toppi á hvert kex (ég fór um 3 hringi upp með 1 M stút frá Wilton).
- Frystið í um klukkustund.
- Bræðið súkkulaðið og hrærið olíunni síðan vel saman við, notist við djúpa granna skál.
- Takið síðan eina kókosbollu úr frystinum í senn, dýfið henni á kaf í súkkulaði, hristið það aðeins af og leggið á bökunarpappír.
- Áður en súkkulaðið storknar alveg má skreyta með kökuskrauti og kókosmjöli.

Það er OFUR-einfalt að útbúa þessar kókosbollur og þær eru æðislegar með kaffinu eða í næstu veislu. Flødebolleskum fæst í Melabúðinni og Fjarðarkaup.

Hvar fær maður flødebolleskum?