Ískaka með karamellu og pekanhnetum⌑ Samstarf ⌑
jólaís uppskrift

Það er eitthvað hátíðlegt við að gera heimatilbúinn ís á aðventunni. Ég hef gert ófáa slíka í gegnum tíðina og finnst alltaf gaman að bera ísinn fram eins og ísköku sem skorin er í sneiðar. Hér er hafrakexbotn sem smellpassar með karamellunni og góða ísnum, nammi, namm!

heimagerður ís

Pekanhnetur, karamella, hafrakex og ljúffeng ísblanda er fullkomið „combo“!

ís með karamellu

Ískaka með karamellu og pekanhnetum

Fyrir um 10-12 manns

Hafrakexbotn

 • 250 g hafrakex
 • 100 g brætt smjör
 1. Setjið bökunarpappír í botninn á um 20-22 cm smelluformi.
 2. Brytjið kexið gróft niður í blandara og myljið niður í honum þar til sandáferð er komin á kexið.
 3. Setjið kexmylsnuna í skál, hellið smjörinu yfir og blandið saman.
 4. Hellið í kökuformið, þjappið niður í botninn og upp um það bil hálfar hliðar, setjið í frysti á meðan þið útbúið karamelluna og fyllinguna.

Karamella með pekanhnetum

 • 120 g smjör
 • 80 g púðursykur
 • 2 msk. sýróp
 • 1 tsk. vanilludropar
 • ¼ tsk. salt
 • 80 g pekanhnetur (saxaðar)
 1. Bræðið smjörið við meðalhita í potti og bætið þá púðursykri og sýrópi saman við.
 2. Náið suðunni upp og lækkið síðan aftur í meðalhita, leyfið aðeins að bubbla og hrærið í allan tímann þar til sykurinn er uppleystur.
 3. Takið þá af hellunni, bætið vanilludropum, salti og pekanhnetum saman við og leyfið blöndunni að ná stofuhita áður en þið blandið henni saman við ísinn í næsta skrefi.

Fylling og samsetning

 • 400 ml þeyttur rjómi
 • 5 egg aðskilin
 • 60 g púðursykur
 • 40 g sykur
 • 2 tsk. vanillusykur
 • 40 g karamellukurl
 • 20 g pekanhnetur
 1. Stífþeytið eggjahvíturnar og geymið til hliðar ásamt þeytta rjómanum.
 2. Þeytið síðan saman eggjarauður, báðar tegundir af sykri og vanillusykur þar til blandan þykkist og verður ljós á litinn.
 3. Vefjið næst rjómanum varlega saman við með sleikju og þar á eftir stífþeyttu eggjahvítunum.
 4. Hellið ísblöndunni síðan í formið, ofan á kexbotninn í nokkrum skömmtum. Setjið smá, síðan smá karamellu óreglulega hér og þar og endurtakið þar til bæði ísblanda og karamella er búin.
 5. Sléttið aðeins úr toppnum og stráið karamellukurli og pekanhnetum yfir toppinn.
 6. Frystið í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt og losið þá úr smelluforminu og skerið í sneiðar.
jólaís með karamellu

Það er lítið mál að útbúa þessa ísköku með fyrirvara, plasta vel og geyma þar til það á að bera hana fram. Gott er að leyfa henni að standa í um 5 mínútur áður en þið skerið hana í sneiðar.

ískaka uppskrift

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun