
Nú veit ég ekki hvar ég á að byrja því þessi kaka var svo undursamleg að henni er erfitt að lýsa með orðum! Heitar súkkulaðikökur með blautri miðju eru dásamlegar og Mikla Daim súkkulaðið passaði svo vel í þessa uppskrift að ég hef ekki getað hætt að hugsa um hana síðan ég bjó hana til.
Hér getið þið séð myndband af uppskriftinni en það er svo frábært hvað samstarfsaðilar mínir hjá Gerum daginn girnilegan eru metnaðarfullir þegar kemur að uppskriftum, myndböndum og öðru. Ég mæli með að þið kíkið á síðuna þeirra en þar er ógrynni af góðum uppskriftum eftir fjölmarga höfunda.

Súkkulaðikaka með blautri miðju uppskrift
Uppskrift dugar í 6 souffle form
- 170 g smjör
- 240 g Milka Daim súkkulaði
- 80 g 70% súkkulaði
- 3 egg
- 2 eggjarauður
- 50 g hveiti
- 90 g flórsykur
- ½ tsk. salt
- Súkkulaðisósa (sjá uppskrift að neðan)
- Ís og rifsber til skrauts
- PAM matarolíusprey
- Bræðið smjör og báðar tegundir af súkkulaði saman í vatnsbaði, leyfið hitanum aðeins að rjúka úr.
- Þeytið egg og eggjarauður þar til blandan verður létt og ljós, hellið þá súkkulaðiblöndunni varlega saman við.
- Sigtið hveiti, flórsykur og salt yfir skálina og vefjið varlega saman við súkkulaðiblönduna þar til vel blandað.
- Spreyið formin vel að innan með matarolíuspreyi og fyllið um ¾ af forminu.
- Bakið við 210°C í 13-15 mínútur.
- Leyfið kökunum aðeins að kólna niður og setjið þá ískúlu, súkkulaðisósu og rifsber á hverja köku. Einnig er hátíðlegt og fallegt að sigta örlítinn flórsykur yfir allt í lokin.

Þetta súkkulaði sko…..það er klárlega nokkrum númerum of gott!

Ef þessi kaka er ekki fullkominn eftirréttur yfir hátíðirnar þá veit ég ekki hvað.