
Hrískökur og skyrkökur eru klárlega eitthvað sem ég elska í sitthvoru lagi svo útkoman úr þessari tilraunastarfsemi fór klárlega fram úr væntingum! Almáttugur hvað það passaði vel að hafa „chewy“ súkkulaði hrískökubotninn á móti léttri jarðarberjafyllingunni, NAMM, NAMM, NAMM!

Ég ætla ekkert að reyna að selja ykkur þessa hugmynd frekar, þessa bara hreinlega verðið þið að prófa!

Skyrkaka í hrískökuskál uppskrift
Hrískökuskál
- 30 g smjör
- 150 g suðusúkkulaði
- 180 g Lyle‘s sýróp (úr dós)
- 100 g Rice Krispies
- Setjið bökunarpappír í botninn á um 22 cm smellformi. Spreyið það síðan að innan með matarolíuspreyi. Með þessu móti er ekkert mál að ná kökunni úr eftir kælingu.
- Bræðið smjör, súkkulaði og sýróp saman í potti, leyfið að sjóða í um eina mínútu og takið af hitanum.
- Hrærið Rice Krispies saman við, hellið blöndunni í smelluformið og pressið í botninn og upp hliðarnar og kælið áður en þið setjið fyllinguna í.
Fylling
- 3 x dós af Ísey skyri með jarðarberjum og hvítu súkkulaði (3 x 170 g)
- 500 ml stífþeyttur rjómi
- Um 100 g hvítt súkkulaði
- Um 250 g jarðarber
- Blandið varlega saman skyri og rjóma með sleif, hellið í hrískökuskálina.
- Skafið hvítt súkkulaði niður, t.d með ostaskera og skerið jarðarberin niður.
- Setjið súkkulaði og jarðarber til skiptis ofan á kökuna og síðan er fallegt að skreyta einnig með ferskum blómum en því má þó sleppa.

Þetta skyr er klárlega með betri skyrum sem ég hef smakkað, undurljúffengt og létt, slurp!
