Brauð með súkkulaði, eða súkkulaði með brauði, bæði betra!

Hulda Sif kom með úrklippumynd heim úr leikskólanum í síðustu viku þar sem þau höfðu klippt alls konar út úr tímaritum og límt á blað. Þar var mynd af svipuðum hring og þessum og hún var alveg staðráðin í því að við þyrftum að baka svona brauðhring. Auðvitað fær litla prinsessan á heimilinu allt sem hún óskar sér svo við bökuðum þennan súkkulaðihring um síðustu helgi og var hann alveg dásamlega góður!

Súkkulaðihringur
- 150 g smjör
- 500 l mjólk
- 120 g sykur
- 1 pk. þurrger (11,8g)
- 720 g hveiti
- 1 tsk. salt
- 380 g súkkulaði- og heslihnetusmjör
- Bræðið smjör í potti og hellið þá mjólkinni og sykrinum saman við.
- Hitið saman þar til rétt ylvolgt og færið yfir í skál (svo það hitni ekki frekar)
- Hellið þurrgerinu saman við og blandið saman, leyfið að standa í nokkrar mínútur á meðan þið vigtið hveiti og salt í hrærivélarskálina.
- Setjið hveiti og salt í hrærivélarskálina og notið krókinn. Hellið gerblöndunni saman við og hnoðið í nokkrar mínútur.
- Penslið stóra skál að innan með matarolíu, takið deigið úr hrærivélarskálinni, hnoðið það stutt í höndunum í kúlu og veltið kúlunni upp úir matarolíuhúðinni í stóru skálinni, plastið og leyfið að hefast í um eina klukkustund.
- Hitið ofninn í 200°C og takið til bökunarplötu með bökunarpappír.
- Fletjið deigið út í um það bil 35 x 70 cm.
- Hitið súkkulaði- og hnetusmjörið lítillega í örbylgjuofni til að það linist aðeins upp og smyrjið því síðan jafnt yfir deigið.
- Rúllið upp eins og þið ætlið að gera snúða en skerið síðan „rúlluna“ til helminga, langsum. Fléttið síðan saman og setjið í hring á bökunarplötunni. Gott er að taka aðeins af endunum og klemma síðan slétta enda saman.
- Bakið í 25-30 mínútur eða þar til hringurinn er orðinn vel gylltur.

Mmmm…..
