Hér er á ferðinni ostakaka að pólskum sið. Twaróg osturinn er vinsæl ostategund í Póllandi og mikið notaður í matseld og bakstur þarlendis.

Ég er búin að smakka hann fram og tilbaka og mín lýsing á honum er að ég myndi segja þetta sé mitt á milli þess að vera kotasæla eða rjómaostur og ég þarf klárlega að prófa að nota þennan ost á fleiri vegu.

Þar sem ég hef enga reynslu í að vinna með þessa tegund af osti skoðaði ég nokkur pólsk blogg og datt inn á þessa uppskrift á Everyday Delicious og breytti henni ekki mikið. Vildi meira prófa að vinna með ostinn og átta mig á honum út frá reynslu einhvers sem þekkir hann betur, svo getur maður farið að leika sér með hann í framhaldinu.

Sernik ostakaka frá Póllandi
Botn og toppur
- 250 g hveiti
- 25 g bökunarkakó
- 100 g sykur
- ½ tsk. lyftiduft
- ¼ tsk. salt
- 150 g smjör (kalt í teningum)
- 1 eggjarauða
- 50 g súrmjólk
- 1 tsk. vanilludropar
- Blandið þurrefnunum fyrst saman og hellið þá restinni af hráefnunum saman við.
- Hnoðið saman í höndunum. Smjörið mýkist aðeins upp við það og hnoðið þar til þið náið að þjappa allt vel saman.
- Skiptið deiginu þá niður, c.a 2/3 og 1/3. Setjið báða hluta í plastfilmu og þann minni í frystinn (til að rífa ofan á toppinn síðar) og þann stærri í kæli í um 40 mínútur.
- Hitið þá ofninn í 180°C.
- Setjið bökunarpappír í botninn á 24-26 cm stóru springformi og spreyið næst með matarolíuspreyi.
- Takið deigið úr kælinum, linið það aðeins upp með því að hnoða það og þjappið því næst yfir botninn og örlítið upp á hliðarnar.
- Bakið í 15 mínútur og útbúið ostakökufyllinguna á meðan.
Ostakökufylling
- 200 g smjör við stofuhita
- 6 eggjarauður
- 250 g sykur (tvískiptur)
- 1 kg Twaróg ostur frá Mjólkursamsölunni
- 2 tsk. vanilludropar
- 1 msk. appelsínubörkur
- 7 eggjahvítur
- 40 g vanillubúðingsduft (Royal)
- Þeytið saman smjör, eggjarauður og helminginn af sykrinum þar til létt og ljóst.
- Setjið á meðan Twaróg ostinn í skál og hnoðið/jafnið aðeins í höndunum svo hann losni vel í sundur og verði jafnari.
- Bætið honum ásamt vanilludropum og appelsínuberki saman við smjörblönduna, skafið vel niður á milli.
- Þeytið eggjahvíturnar í annarri skál ásamt restinni af sykrinum þar til topparnir halda sér, bætið þá vanillubúðingsduftinu saman við og hrærið saman stutta stund í viðbót.
- Vefjið til að byrja með um ¼ af eggjahvítublöndunni saman við ostablönduna með sleikju.
- Bætið restinni síðan saman við í nokkrum skömmtum og blandið áfram varlega saman.
- Hellið að lokum ostablöndunni yfir kexbotninn sem búið er að taka úr ofninum.
- Rífið að lokum deigið sem er búið að vera í frystinum niður með grófu rifjárni og dreifið yfir ostakökufyllinguna.
- Bakið í 70 mínútur og leyfið síðan að kólna í að minnsta kosti 3 klukkustundir áður en þið takið úr forminu.

Þessi kaka heppnaðist mjög vel og súkkulaðibotninn og toppurinn gerir mikið fyrir hana. Hún er annars í eðli sínu ekki mjög sæt og rjómkennt ostabragð skín vel í gegn.