Hátíðleg hindberja ostakaka



⌑ Samstarf ⌑
Ostakaka með hvítu súkkulaði og hindberjum

Þá höldum við áfram að jóla yfir okkur sem mér finnst algjörlega frábært! Ég elska að halda matarboð, veislur og útbúa gómsætan mat. Eftirréttir eru mitt uppáhald og gæti ég held ég fundið upp á endalaust nýjum uppskriftum hvað slíka varðar, hahaha!

Jóla ostakaka

Þessi ostakaka fór beint úr myndatöku hjá mér í afmæli hjá börnum vinkonu minnar og það voru án gríns allir að missa sig yfir þessari henni. Það er fátt sniðugra en að fara með svona tilraunastarfsemi þar sem margir álitsgjafar geta gefið einkunn og þessi hér var algjör TÍA, bæði hjá ungum sem öldnum.

Hindberja ostakaka

Hátíðleg hindberja ostakaka

Botn

  • 200 g Lu Bastogne kex
  • 70 g brætt smjör
  1. Setjið smjörpappír í botninn á 18-20 cm smelluformi.
  2. Setjið kexið í blandara/matvinnsluvél og blandið þar til það er orðið að kexdufti.
  3. Hrærið smjörinu saman við og þjappið í botninn á smelluforminu, ýtið smá blöndu aðeins upp kantana.
  4. Setjið í kæli á meðan þið útbúið ostakökufyllinguna.

Ostakökufylling

  • 400 g Philadelphia rjómaostur við stofuhita
  • 120 g sykur
  • 50 g flórsykur
  • 3 gelatínblöð (+ 50 ml vatn)
  • 2 tsk. vanillusykur
  • 200 g hvítt Toblerone (brætt)
  • 200 ml þeyttur rjómi
  • 150 g Driscolls hindber (stöppuð)
  1. Leggið gelatínblöðin í skál með köldu vatni í um 10 mínútur. Sjóðið 50 ml af vatni í potti og vindið eitt og eitt gelatínblað upp úr kalda vatninu og blandið saman við það heita. Hrærið vel þar til þau eru öll uppleyst. Hellið í aðra skál og leyfið blöndunni að ná stofuhita á meðan annað er undirbúið.
  2. Þeytið saman rjómaost, sykur og flórsykur í nokkrar mínútur.
  3. Bætið vanillusykri og bræddu Toblerone saman við og næst gelatínblöndunni í mjórri bunu.
  4. Næst má vefja rjómanum saman við með sleikju og að lokum stöppuðum hindberjunum. Því lengur sem þið hrærið hindberjunum saman við blönduna, því bleikari tónn verður á kökunni. Hér er aðeins búið að blanda þeim örstutta stund saman við og því er kakan mikið hvít í grunninn.
  5. Hellið blöndunni í smelluformið ofan á kexbotninn og kælið í að minnsta kosti 3 klukkustundir eða yfir nótt.
  6. Rennið síðan hníf meðfram henni að innan áður en þið smellið hringnum af henni.

Skreyting

  • 200 g Driscolls hindber
  • Smá flórsykur
  1. Raðið berjum á miðja kökuna og sigtið smá flórsykur yfir þau til að búa til „snjó“.
Einföld ostakaka með Philadelphia rjómaosti

Hvítsúkkulaði kaka, kexbotn með kanilkeim og fersk hindber eru því klárlega góð blanda!

Góð ostakaka uppskrift

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun