Börnin baka og jólabaksturMöndlukaka uppskrift

Elín Heiða endurgerði á dögunum nokkrar uppskriftir úr bókinni sinni og færði þær í jólabúning. Það er nefnilega þannig að það má gera flestar uppskriftir jólalegar með því að breyta smá skreytingum, lit á kremi, skrauti eða öðru slíku svo það er um að gera að gefa hugmyndarflugingu lausan tauminn. Hér fyrir neðan finnið þið því skemmtilegar og ljúffengar uppskriftir sem henta vel fyrir hátíðirnar.

Barnabók í jólapakkann

Hér sjáið þið forsíðumyndina á bókinni en þar gerði Elín Heiða möndluköku með bláum glassúr. Hér fyrir neðan finnið þið síðan sömu uppskrift í ögn jólalegri búningi.

Góð möndlukaka með glassúr

Möndlukaka uppskrift

Kaka

 • 4 egg
 • 250 g sykur
 • 225 g hveiti
 • 2 tsk. lyftiduft
 • 200 g brætt smjör
 • 3 tsk. möndludropar
 1. Hitið ofninn í 170°C og smyrjið stórt hringlaga form með gati í miðjunni vel að innan með smjöri.
 2. Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljós blanda myndast.
 3. Bætið hveiti og lyftidufti saman við og hrærið varlega saman.
 4. Að lokum má blanda bræddu smjörinu ásamt möndludropum saman við og hræra stutta stund til viðbótar.
 5. Hellið í formið og bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsu á endanum en ekki blautu deigi.
 6. Kælið kökuna alveg áður en þið setjið glassúrinn ofan á.

Glassúr

 • 320 g flórsykur
 • 4 msk. heitt vatn
 • Nokkrir dropar af matarlit
 • 2 dropar af möndludropum
 1. Hrærið öllu saman í skál með písk/skeið þar til kekkjalaust.
 2. Smyrjið yfir kökuna og leyfið aðeins að leka niður hliðarnar.
Heit Toblerone íssósa

Heit íssósa er síðan eitthvað sem steinliggur, er súpereinfalt að gera og allir elska!

Heit íssósa uppskrift

 • 220 g Toblerone súkkulaði
 • 100 ml rjómi
 1. Saxið Toblerone gróft niður og setjið í pott ásamt rjómanum.
 2. Hitið saman við meðalhita þar til súkkulaðið hefur bráðnað, hrærið reglulega í sósunni á meðan.
 3. Leyfið hitanum síðan aðeins að rjúka úr sósunni áður en hún er notuð á ís.
 4. Gott er að strá söxuðu Toblerone yfir ísinn ásamt heitu sósunni.
Góð skyrkaka uppskrift

Berjaskyrkaka er í uppáhaldi hjá Elínu Heiðu og hér kemur slík útfærsla sem tilvalið væri að bjóða upp með hátíðar brönsinum eða sem eftirrétt.

Berjaskyrkaka uppskrift

Botn

 • 1 pakki Lu Bastogne kex
 • 60 g brætt smjör
 1. Myljið kexið í blandara/matvinnsluvél þar til það verður duftkennt.
 2. Hellið kexmylsnunni í skál og blandið brædda smjörinu saman við.
 3. Pressið í botninn á fati/skál og kælið á meðan annað er útbúið.

Fylling og toppur

 • 500 g Ísey skyr með bláberjum og hindberjum
 • 500 ml rjómi
 • Um 125 g bláber
 • Um 125 g hindber
 • 30 g saxað suðusúkkulaði
 1. Þeytið rjómann og blandið skyrinu varlega saman við hann og setjið yfir kexbotninn.
 2. Skreytið með ferskum bláberjum, hindberjum og söxuðu súkkulaði.
 3. Geymið í kæli fram að notkun.
Góðar uppskriftir fyrir börn

Rice Krispies kubbar frá Ameríku settir í jólalegan búning. Ég veit ekki hversu oft Elín Heiða hefur gert þessa uppskrift hér en hún hreinlega elskar hana og vill að allir smakki, haha! Hún tók ekki annað í mál en að gera hana fyrir útvarpsviðtöl og annað smakk svo hér kemur þessi einfalda, klístraða og góða uppskrift fyrir ykkur að prófa.

Hrískökubitar

Hrískökubitar uppskrift

Þessir bitar eiga uppruna sinn frá Ameríku en þar eru hrískökur og slíkt yfirleitt búið til úr sykurpúðum. Þeir eru teygjanlegir og virkilega góðir. Þegar verið er að bræða saman sykurpúða og smjör minnir blandan helst á köngulóarvef og það getur verið aðeins stíft að hræra Rice Krispies saman við svo það þarf að nota kraftana til að þessi uppskrift verði eins og hún á að vera.

16 stk

 • 60 g smjör
 • 260 g sykurpúðar
 • 150 g Rice Krispies/blásið hrísmorgunkorn
 • Matarolíusprey
 • Litað súkkulaði að eigin vali til skreytingar
 1. Klæðið um 25 x 25 cm kökuform að innan með bökunarpappír og spreyjið næst með smá matarolíuspreyji svo auðveldara verði að ná kökunni úr til að skera hana í bita. 
 2. Bræðið smjör í potti við vægan hita.
 3. Blandið sykurpúðunum saman við og hrærið þar til þeir hafa bráðnað saman við smjörið og loftkennd blanda myndast.
 4. Takið af hellunni og hrærið hrísmorgunkorninu saman við. Blandan minnir smá á klístraðan köngulóarvef og þannig á hún einmitt að vera.
 5. Setjið nú alla blönduna yfir í kökuformið og þjappið niður með sleif, gott er að setja smá matarolíusprey á sleifina líka svo hún klístrist síður við.
 6. Þjappið niður eins og þið getið og sléttið úr toppnum, kælið síðan í um 30 mínútur.
 7. Nú ætti blandan að vera orðin stíf í sér og auðvelt að lyfta henni á bökunarpappírnum upp úr forminu yfir á borð/bretti.
 8. Bræðið litað súkkulaði sem ykkur þykir fallegt og dreifið óreglulega úr því með teskeið yfir kökuna og leyfið að storkna áður en þið skerið niður í bita.
 9. Skerið kökuna niður í 4 x 4 bita eða 16 samtals og geymið í kæli fram að notkun. 

Það hefði verið hægt að velja ýmsar útgáfur af Elínu Heiðu á forsíðuna, hahaha!

UPpskriftabók í jólapakkann

Hægt er að versla bókina hennar í öllum helstu verslunum og í Netverslun Gotterí

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun