12 ára afmælispartý



AFmæliskaka

Elsku Elín Heiða okkar varð 12 ára í mars síðastliðnum. Hún útbjó allar kökur og sætindi sjálf fyrir afmælið og ég fékk bara að aðstoða við að leggja á borð og taka myndir. Myndir úr afmælinu hennar fóru í Fréttablaðið á dögunum og nú loksins gaf ég mér tíma til þess að setja þessar hugmyndir hingað inn fyrir ykkur.

Blátt og hvítt þema í barnaafmæli

Ég keypti fyrir nokkrum árum allt þetta bláa og hvíta borðskraut í Target. Það var hugsað fyrir afmæli elstu dótturinnar það árið en síðan vildi hún eitthvað annað á þeim tíma svo dótið hefur setið inn í skáp allan þennan tíma. Elínu leist vel á að nota það fyrir afmælið sitt og ákvað hún veitingar og skreytingar á kökum út frá því. Blátt, hvítt og brúnt/svart nammi fékk inngöngu í partýið og setti hún nammi í alls kyns krúsir og skálar um allt borðið. Krítar, sykurpúðar, Oreokex í öllum stærðum og gerðum, blátt höfrungahlaup, blátt Skittles, Marianne brjóstsykur í bláu og hvítu bréfi og alls konar fleira.

Nammibar í afmæli

Stundum þarf að leyfa hugmyndarfluginu að njóta sín og alltaf gaman að blanda saman alls kyns skrauti og nammi í stíl við veisluþemað. Það gefur borðinu svo mikla fyllingu og skemmtilegt fyrir gesti að hafa úr nægu að velja. Það er ekki mikil fyrirhöfn fólgin í því að setja nammi í skálar og krúsir en gerir alveg ótrúlega mikið fyrir útlitið á borðinu.

BArnaafmæli

Hún var með ákveðnar hugmyndir fyrir leiki í afmælinu og var hún með stoppdans, töludans, setudans, pakkaleik, lukkuhjól og „Pubquiz“. Hún smíðaði lukkuhjól í smíði í skólanum og síðan fórum við og keyptum alls kyns verðlaun, allt frá nammi og upp í eitthvað stærra. Demantadót (diamond painting) er vinsælt hjá henni þessa dagana og keyptum við nokkur slík og síðan límdi hún texta á hverja sneið á hjólinu sem tilgreindi hvað viðkomandi hefði unnið. Þvílíku lukkuna sem þetta hjól vakti, þeim fannst þetta alveg geggjað. Ég gúglaði bara krakkaspurningar, pubquiz fyrir börn og fann upp á einhverju sjálf. Útbjó síðan 20 spurningar og stelpurnar voru tvær og tvær í liði og stigahæsta liðið fékk smá verðlaun.

Tacos er uppáhalds maturinn hennar Elínar og ég útbjó RISA skammt af slíku fyrir þær í kvöldmat, skar niður fullt af grænmeti og þær sáu svo sjálfar um að setja inn í sínar skeljar. Síðan voru leikir og kökur langt fram á kvöld.

Leikir í barnaafmæli

Lukkuhjólið fræga!

Hvítar rice krispies kökur með sykurpúðum

Hrískökukubbar uppskrift

16 stk

  • 60 g smjör
  • 260 g sykurpúðar
  • 150 g Rice Krispies/blásið hrísmorgunkorn
  • Matarolíusprey
  • Litað súkkulaði að eigin vali til skreytingar
  1. Klæðið um 25 x 25 cm kökuform að innan með bökunarpappír og spreyjið næst með smá matarolíuspreyji svo auðveldara verði að ná kökunni úr til að skera hana í bita. 
  2. Bræðið smjör í potti við vægan hita.
  3. Blandið sykurpúðunum saman við og hrærið þar til þeir hafa bráðnað saman við smjörið og loftkennd blanda myndast.
  4. Takið af hellunni og hrærið hrísmorgunkorninu saman við. Blandan minnir smá á klístraðan köngulóarvef og þannig á hún einmitt að vera.
  5. Setjið nú alla blönduna yfir í kökuformið og þjappið niður með sleif, gott er að setja smá matarolíusprey á sleifina líka svo hún klístrist síður við.
  6. Þjappið niður eins og þið getið og sléttið úr toppnum, kælið síðan í um 30 mínútur.
  7. Nú ætti blandan að vera orðin stíf í sér og auðvelt að lyfta henni á bökunarpappírnum upp úr forminu yfir á borð/bretti.
  8. Bræðið litað súkkulaði sem ykkur þykir fallegt og dreifið óreglulega úr því með teskeið yfir kökuna og leyfið að storkna áður en þið skerið niður í bita.
  9. Skerið kökuna niður í 4 x 4 bita eða 16 samtals og geymið í kæli fram að notkun. 
cheerioskökur í barnaafmæli

Cheerioskökur uppskrift

Um 20 stykki

  • 50 g smjör
  • 150 g suðusúkkulaði
  • 220 g þykkt sýróp
  • 130 g Cheerios
  1. Setjið smjör, súkkulaði og sýróp saman í pott og bræðið saman við meðalháan hita.
  2. Þegar bráðið er gott að auka hitann aðeins í lokin og leyfa blöndunni að sjóða saman í um eina mínútu og slökkva síðan á hellunni.
  3. Næst má setja Cheerios saman við, blanda vel saman við súkkulaðiblönduna og skipta síðan niður í pappaform.
  4. Gott er að geyma kökurnar síðan í kæli.
Afmæliskaka

Afmæliskakan var með tveimur súkkulaðikökubotnum og einum vanillukökubotni. Hvorutveggja er Betty Crocker og síðan er Betty Vanilla frosting þykkt með flórsykri til að setja á milli botna og til þess að þekja kökuna. Kakan síðan skreytt með bláu Skittles, Oreo, kertum og þessu fallega kökuskilti frá Hlutprent.

Afmæliskaka

Elín Heiða er mikil körfuboltastelpa og Jordan aðdáandi. Talan á búningnum hennar er 19 og hún vildi því hafa þá tölu á skiltinu og snillingarnir hjá Hlutprent geta látið allar óskir rætast þegar kemur að hönnun kökuskilta!

Barnaafmæli hugmyndir

Sykurpúðar sem dýft er í litað súkkulaði eru alltaf klassík og ótrúlega einfalt að útbúa slíka.

Hugmyndir fyrir barnaafmæli

Hér fyrir neðan er síðan dúllan mín á 11 ára afmælisdaginn sinn í fyrra. Þá héldu þær tvær vinkonur saman upp á afmælið sitt þar sem við mömmurnar kenndum þeim að skreyta sína eigin drip-köku og stóðu þær sig allar ótrúlega vel. Þessi stelpa hefur verið alin upp í eldhúsinu og elskar að baka og dúllast þar!

Kids baking

„Goody-bag“ er síðan eitthvað sem við elskum að útbúa svo allar stelpurnar voru leystar út með smá gjöf að afmæli loknu.

Gúddí bag

Hér má síðan sjá aðeins frá undirbúningi og veislu í máli og myndböndum á Instastory

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun