Súkkulaðimús er okkar uppáhald þegar kemur að eftirréttum. Ég hugsa ég gæti útbúið endalausar útfærslur af slíkri án þess að fá leið!

Hér er ég búin að taka klassísku súkkulaðimúsina mína og setja smá lúxus konfekt-twist á hana og almáttugur maður minn, þessi er eitthvað annað! Silkimjúk og mild á bragðið og ég ætla að viðurkenna að ég mun að öllum líkindum halda framhjá þessari klassísku í ár!

Konfektmús uppskrift
Uppskrift dugar í um 8 glös/skálar
- 200 g Cote D‘or Bouchée súkkulaði (1 pakki)
- 200 g dökkt súkkulaði
- 100 g smjör
- 4 egg
- 1 l þeyttur rjómi (skipt í 500 og 500 ml)
- Bökunarkakó til skrauts + blóm
- Brytjið Cote D‘or og dökkt súkkulaði niður í grófa bita.
- Bræðið ásamt smjörinu yfir vatnsbaði, hrærið vel á milli og takið af hitanum þegar bráðið og leyfið að standa á meðan annað er undirbúið.
- Þeytið 500 ml af rjómanum og geymið til hliðar á meðan þið pískið eggin saman í annarri skál.
- Bætið eggjunum saman við súkkulaðiblönduna í nokkrum skömmtum og pískið vel saman á milli.
- Setjið um 1/3 af þeytta rjómanum saman við súkkulaðiblönduna og vefjið saman við með sleikju. Bætið síðan aftur 1/3 og blandið og að lokum restinni og blandið vel þar til ljósbrún og silkimjúk áferð hefur myndast.
- Skiptið niður í glös/skálar og kælið í að minnsta kosti 3 klukkustundir (eða yfir nótt).
- Þeytið hina 500 ml af rjómanum og sprautið í hvert glas/skál, sigtið smá bökunarkakó yfir og skreytið með ferskum blómum.

Cote D’or Bouchée súkkulaðið er auðvitað draumi líkast, hvort sem það er brætt í súkkulaðimús eða þið njótið molans með kaffi. Súkkulaðið fæst í Fjarðarkaup, Hagkaup og í Melabúðinni.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan.