Súkkulaðiterta með mokkakremi⌑ Samstarf ⌑

Súkkulaðikaka með mokkakremi og sykruðum jólatrjám

Hó, hó, hó! Þessi kaka er undur ljúffeng og jólaleg!

Súkkulaðikaka með mokkakremi

Hún fór í jólablað Fréttablaðsins á dögunum og er nú komin hingað inn fyrir ykkur að prófa.

Jólakaka

Súkkulaðiterta með mokkakremi

Kökubotnar uppskrift

 • 225 g hveiti
 • 330 g sykur
 • 80 g Cadbury bökunarkakó
 • 2 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. lyftiduft
 • 1 tsk. salt
 • 2 egg
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 80 ml matarolía
 • 220 ml súrmjólk
 • 200 ml sterkt, heitt, uppáhellt Java Mokka kaffi frá Te&kaffi
 1. Hitið ofninn í 170°C.
 2. Smyrjið 3 x 15 kökuform vel með smjöri og sigtið bökunarkakó yfir, klippið einnig bökunarpappír í botninn.
 3. Setjið öll þurrefnin í hrærivélarskálina (sigtið bökunarkakóið saman við).
 4. Setjið næst egg, vanilludropa, matarolíu og súrmjólk saman í skál og pískið saman.
 5. Hellið heitu kaffinu saman við eggjablönduna í mjórri bunu og hrærið vel í á meðan.
 6. Hellið að lokum allri eggjablöndunni í hrærivélarskálina, blandið saman við þurrefnin og skafið niður þar til þunnt og slétt deig hefur myndast.
 7. Skiptið jafnt á milli formanna og bakið í 30-35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum en ekki blautu deigi.

Mokkakrem uppskrift

 • 190 g smjör við stofuhita
 • 500 g flórsykur
 • 2 tsk. vanilludropar
 • 5 msk. sterkt uppáhellt Java Mokka kaffi frá Te&kaffi (kælt)
 1. Hrærið öllu saman við meðalháan hraða í nokkrar mínútur þar til létt, ljósbrúnt krem hefur myndast, skafið niður á milli.

Jólatré uppskrift

 • 2-3 pokar af rósmaríngreinum
 • 120 ml vatn
 • 100 g sykur (+ um 200 til að velta upp úr)
 1. Sjóðið saman sykur og vatn við meðalháan hita þar til sykurinn er uppleystur.
 2. Veltið rósmaríngreinum upp úr sykurleginum, hristið eins mikið af vökvanum af og þið getið og leggið á bökunarpappír í um klukkustund.
 3. Hellið þá um 200 g af sykri í skál og veltið sykurlegnum greinunum upp úr sykrinum og hristið af eins og þið getið, leggið á nýjan bökunarpappír og leyfið að þorna í að minnsta kosti klukkustund áður en þið skreytið kökuna með þeim.

Samsetning

 1. Setjið kökubotn á disk og smyrjið um 1 cm þykku lagi af kremi ofan á hann.
 2. Leggið næsta botn ofan á og endurtakið leikinn.
 3. Að lokum fer þriðji botninn ofan á og kakan er hjúpuð þunnt á hliðunum og með um 1 cm þykku lagi á toppnum.
 4. Sléttið næst toppinn og skafið síðan vel af hliðunum með rökum spaða til að fá „naked cake“ útlit á kökuna. Það fer smá krem aftur upp fyrir kantinn en það gefur kökunni smá „rustic“ útlit svo endilega leyfið því bara að vera þannig í stað þess að slétta alveg.
 5. Kælið kökuna svo kremið stífni vel og skreytið síðan með rósmarín jólatrjám og bindið brúnan bandspotta um kökuna miðja.
Súkkulaðikaka með Cadbury bökunarkakó

Það er lítið mál að útbúa sykruð jólatré úr rósmarín svo alls ekki láta það stoppa ykkur. Ég hef líka verið á hraðferð með svona skreytingar og þá má stinga stönglunum beint í kökuna og sigta smá flórsykur yfir til að bjarga sér.

Súkkulaðiterta með mokkakremi fyrir hátíðirnar

Mér þætti vænt um að þið fylgduð Gotterí líka á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun