
Þessar undursamlegu bollakökur bakaði ég fyrir jólablað Fréttablaðsins á dögunum sem kom út núna um helgina. Þær minna svo sannarlega á jólin þó svo þær megi að sjálfsögðu baka á hvaða tíma ársins sem er.

Þær voru virkilega góðar og síðan mundi ég loksins eftir því að nota fallegu bollakökusleðana mína sem ég keypti í Crate & Barrel þegar við bjuggum í Seattle. Ég hef alltof sjaldan notað þá og litlunum mínum fannst mjög spennandi að fá bollaköku á sleða!

Jólabollakökur með kanilkeim
Um 15-17 stykki
Bollakökur uppskrift
- 120 g smjör við stofuhita
- 100 g púðursykur
- 2 egg
- 120 ml nýmjólk
- 150 ml Steeves Maples sýróp
- 1 tsk. vanilludropar
- 220 g hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 2 tsk. kanill
- ½ tsk. engifer
- ½ tsk. negull
- Hitið ofninn í 175°C.
- Þeytið smjör og púðursykur þar til létt og ljóst.
- Bætið eggjunum saman við, einu í einu og skafið niður á milli.
- Blandið restinni af þurrefnunum saman í aðra skál.
- Næst má setja mjólk og sýróp saman við smjörblönduna og loks þurrefnin í nokkrum skömmtum.
- Skafið vel niður á milli og hrærið þar til deigið verður slétt og fínt.
- Skiptið því niður í bollakökuformin, fyllið um 2/3 af hverju formi.
- Bakið í 18-20 mínútur og kælið áður en kremið er sett á.
Rjómaostakrem uppskrift
- 190 g rjómaostur við stofuhita
- 75 g smjör við stofuhita
- 590 g flórsykur
- 2 tsk. vanillusykur
- 2 tsk. Steeves Maples sýróp
- Þeytið saman smjör og rjómaost þar til létt og ljóst.
- Bætið þá öðrum hráefnum saman við í nokkrum skömmtum, skafið vel niður á milli og hrærið þar til fallegt og slétt krem hefur myndast.
- Setjið kremið í sprautupoka með stórum stjörnustút (t.d 1M frá Wilton) og sprautið vel af kremi í spíral á hverja köku, skreytið með kökuskrauti áður en kremið storknar að utan.

Þetta sýróp er eitt það allra besta, hvort sem það er í bakstur, á pönnukökurnar, beikonið eða hvað eina! Kanadískt hlynsýróp er einfaldlega laaaangbest.
