Því að baka smákökur þegar hægt er að baka smákökubollakökur? Það er alltaf gaman að leika sér með nýjungar og hér eru típískar súkkulaðibitasmákökur settar í lítil bollakökuform og bakaðar þannig. Síðan toppaðar með þeyttum vanillurjóma og jarðarberjahúfu, algjör dásemd og skemmtileg útfærsla fyrir jólin.

Jólasveinahúfur
Um 35-40 stykki
Kökur
- 220 g smjör við stofuhita (+ til að smyrja með)
- 150 g sykur
- 150 g púðursykur
- 2 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- 270 g hveiti
- 1 tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 120 g súkkulaðidropar
- Þeytið saman smjör og báðar tegundir af sykri þar til létt og ljóst.
- Blandið þá eggjum og vanilludropum saman við, þeytið áfram og skafið niður á milli.
- Hrærið þurrefnunum saman í skál og blandið saman við smjörblönduna í nokkrum skömmtum, skafið niður á milli.
- Vefjið að lokum súkkulaðidropunum saman við deigið, plastið það næst og kælið í að minnsta kosti klukkustund (líka í lagi að kæla yfir nótt).
- Hitið ofninn í 175°C og smyrjið lítil ál-bollakökuform vel að innan með smjöri (líka upp fyrir kantana).
- Setjið um eina matskeið af deigi í hvert hólf og bakið í 10-13 mínútur eða þar til kökurnar fara aðeins að gyllast á köntunum.
- Kælið stutta stund og takið næst úr formunum og leyfið að kólna alveg. Best er að snúa upp á kökurnar til að ná þeim úr eða nota lítinn beittan hníf.
- Skreytið með rjóma og jarðarberjum.
Jólasveinahúfur
- 35- 40 jarðarber
- 400 ml rjómi frá Gott í matinn
- 1 tsk. vanillusykur
- 2 msk. flórsykur
- Skerið aðeins ofan af jarðarberjunum og geymið þau á meðan þið þeytið rjómann.
- Setjið rjóma, vanillusykur og flórsykur saman í skál og þeytið þar til stífþeytt.
- Setjið rjómann í sprautupoka og sprautið ofan á hverja köku, leggið næst jarðarberjahatt ofan á rjómann og sprautið síðan litlum rjómadúsk á endann á jarðarberinu.
- Geymið í kæli þar til bera á kökurnar fram.

Þessar kökur voru ekki lengi að klárast hér á heimilinu og rjóminn gerir gott betra!
