Kanilangan og piparkökur eru eitthvað sem einkennir jólin og jólaundirbúning að mínu mati. Þessi kaka færði okkur svo sannarlega jólin, ilmurinn svo lokkandi og kakan guðdómleg.

Það er svo gaman að bjóða upp á fallegar og góðar kökur yfir hátíðirnar og ég hvet ykkur til þess að prófa þessa dásemd.

Kanilkaka með piparkökum
Botnar
- 250 g smjör
- 350 g sýróp (Lyle‘s í grænu flöskunni)
- 150 g púðursykur
- 500 g hveiti
- 100 g Göteborgs piparkökur (mylsna)
- 2 tsk. matarsódi
- 1 tsk. lyftiduft
- 2 tsk. engifer
- 2 tsk. kanill
- ½ tsk. negull
- ½ tsk. salt
- 4 egg
- 250 ml súrmjólk
- Hitið ofninn í 170°C.
- Setjið smjör, sýróp og púðursykur í pott og bræðið saman við meðalhita í nokkrar mínútur, takið af hellunni.
- Setjið öll þurrefnin (+ piparkökumylsnuna) í hrærivélarskálina og hellið sykurblöndunni úr pottinum saman við ásamt eggjum og súrmjólk.
- Hrærið þar til vel blandað og skiptið þá niður í 4 x 15cm kökuform sem búið er að smyrja vel að innan og setja bökunarpappír í botninn. Það fara rúmlega 400 g í hvert form ef þið eruð að vigta.
- Bakið í um 27-30 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum en ekki blautu deigi, kælið áður en þið útbúið kremið.
Krem og skreyting
- 250 g smjör við stofuhita
- 800 g flórsykur
- 3 tsk. vanilludropar
- 120 ml rjómi
- Göteborgs hjartapiparkökur
- Göteborgs súkkulaðihúðaðar piparkökukúlur
- Flórsykur til að sigta yfir
- Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
- Bætið flórsykri, vanilludropum og rjóma saman við í nokkrum skömmtum, hrærið vel og skafið niður á milli.
- Hrærið þar til kremið er orðið létt og loftkennt.
- Smyrjið um 1 cm þykku lagi af kremi á milli botna og hjúpið síðan kökuna að utan með kremi. Skafið þó mesta kremið af hliðunum til að fá „naked cake“ útlit.
- Setjið restina af kreminu í sprautupoka/zip lock poka, setjið smá krem aftan á piparkökur og piparkökukúlur og skreytið eftir ykkar höfði.
- Að lokum má setja flórsykur í lítið sigti og sigta yfir kökuna.

Það var einfalt og fallegt að skreyta kökuna með hjartalaga piparkökum og súkkulaðihúðuðum piparkökukúlum.

Jólaleg og fín!
