Pavlova með fílakaramellusósu



⌑ Samstarf ⌑
Púðursykurs pavlova

Það er eitthvað við marengstertur sem fær mann til að kikna í hnjánum. Ég veit ekki um nokkurn mann sem elskar ekki marengs og það má endalaust finna upp á nýjum fyllingum og góðgæti til að setja saman við marengs. Hér er á ferðinni pavlova sem var sett saman út frá hugmyndarfluginu einu saman, minningunni um góðu súkkulaðifyllinguna í sælgætistertunni í Veislubókinni minni og nostalgíunni með Fílakaramellur síðan í barnæsku. Útkoman er dúndur og þarf ekki fleiri orð, þið bara verðið að leika þessa eftir!

Filakaramellusósa

Púðursykurspavlova uppskrift

Marengs uppskrift

  • 6 eggjahvítur
  • 80 g sykur
  • 400 g púðursykur
  • 2 tsk. maizenamjöl
  • 1 tsk. hvítvínsedik
  • ¼ tsk. salt
  1. Hitið ofninn í 120°C.
  2. Þeytið eggjahvítur þar til þær fara að freyða.
  3. Blandið báðum tegundum af sykri saman í skál og setjið saman við eggjahvíturnar í litlum skömmtum.
  4. Þeytið þar til topparnir halda sér vel, lækkið þá hraðann og bætið maizenamjöli, hvítvínsediki og salti saman við og blandið stutta stund.
  5. Teiknið hring á bökunarpappír (á bökunarplötu) sem er um 23-35 cm í þvermál, hellið blöndunni þar á miðjuna og reynið að móta nokkurs konar grunna skál.
  6. Það er gott að ýta fyrst upp úr miðjunni grunna holu til hliðanna og fara síðan með spaða að utanverðu allan hringinn og draga í sveig upp og ofan í holuna.
  7. Bakið í 110 mínútur og leyfið síðan að kólna með ofninum áður en þið fyllið og skreytið.

Karamellusósa

  • 300 g fílakaramellur frá Cote d‘Or
  • 80 ml rjómi
  1. Hitað saman í potti þar til karamellur hafa bráðnað og hitanum aðeins leyft að rjúka út.
  2. Dreifið um ¾ af karamellusósunni yfir marengsbotninn þegar hann hefur kólnað og hellið síðan fyllingunni þar yfir.

Fylling

  • 6 eggjarauður
  • 80 g flórsykur
  • 150 g suðusúkkulaði
  • 400 ml rjómi
  1. Bræðið suðusúkkulaðið og leyfið hitanum aðeins að rjúka úr.
  2. Þeytið á meðan eggjarauður og flórsykur þar til létt og ljóst.
  3. Lækkið hraðann á hrærivélinni og blandið súkkulaðinu saman við.
  4. Að lokum má þeyta rjómann og vefja honum varlega saman við súkkulaðiblönduna.
  5. Hellið súkkulaðiblöndunni í holuna á pavlovunni og aðeins upp á kantana og kælið á meðan rjómi og skraut er útbúið.

Rjómi og skraut

  • 200 ml þeyttur rjómi
  • Um 300 g niðurskorin Driscolls jarðaber
  • Restin af fílakaramellusósunni
  1. Smyrjið rjómanum lauslega yfir súkkulaðiblönduna, þá næst kemur restin af fílakaramellusósunni og að lokum má skreyta með ferskum jarðaberjunum. 
Filakaramellur í sósu á köku með jarðarberjum

Þessi er með betri pavlovum sem ég hef gert og ég fæ vatn í munninn við að skrifa þessa færslu, núna langar mig alveg svaaaaaaakalega mikið í marengstertu!

Pavlova með púðursykurmarengs uppskrift

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun