
Ég má til með að setja inn færslu af þessum guðdómlega ostabakka sem prýðir forsíðuna, já og reyndar líka baksíðuna á bókinni minni Saumaklúbburinn. Ég fékk nokkrar vinkonur mínar til að vera handamódel þennan dag og stóð sjálf upp á stillans sem var dreginn hálfa leið yfir eldhúsborðið, hahaha! Það er ýmislegt á sig lagt fyrir réttu myndina skal ég segja ykkur!
Ostaveisla sem þessi getur dugað sem léttur kvöldverður en einnig er sniðugt að útbúa svona íburðarmikinn ostabakka sem forrétt í stærri veislu.

Helsti kosturinn við svona ostaveislu að mínu mati er að hér geta flestir fundið sér eitthvað við hæfi. Það er úr nægu að velja og ostar, álegg, kex, brauð og ávextir í bland gleðja bæði augað og bragðlaukana.


Skál fyrir því!

Hér fyrir neðan kemur upptalning á því sem þið finnið á bakkanum en svo er um að gera að láta hugmyndaflugið ráða þegar kemur að því að setja svona bakka saman!
Ostaveisla vinahópsins – hráefni
- Camembert ostur x 2 (annar bakaður)
- Dala Auður x 2 (annar bakaður)
- Gullostur
- Höfðingi
- Mexíkó kryddostur
- Pipar kryddostur
- Feykir ostur
- Grettir ostur
- Óðals Maribo ostur í teningum
- Rjómaostur með sweet chilli sósu
- Hráskinka
- Salamisneiðar
- Salamipylsa
- Eldstafir
- Kex og kexstangir
- Snittubrauð
- Saltkringlur
- Chilli sulta
- Bláberjasulta
- Pestó
- Ólífur
- Hnetur
- Súkkulaðihúðaðar rúsínur
- Makkarónur
- Súkkulaðihjúpuð jarðarber
- Ferskar fíkjur og alls kyns ávextir

Mmmmm það er fátt betra en girnilegur ostabakki.

Gott er að hafa stökkt kex í bland við mjúkt brauð á ostabakka.

Bakaður ostur með pekanhnetum
- Dala Brie
- 3 msk. hlynsýróp
- 2 msk. púðursykur
- ¼ tsk. cheyenne-pipar
- 50 g gróft saxaðar pekanhnetur
- Sýróp, sykur og pipar er sett saman í pott og hitað þar til sykurinn leysist upp og þá má hræra hnetunum saman við.
- Gott er að baka ostinn í eldföstu móti á meðan við 180°C í um 12 mínútur. Hella síðan hnetu- og sýrópsbráðinni yfir ostinn og njóta með góðu kexi eða brauði.

Bakaðir ostar eru sívinsælir, þið finnið fjöldann allan af uppskriftum af slíkum hér á síðunni, til dæmis þessir hér.
Bakaður ostur með beikoni og lauk
Bakaður ostur með pestó og grillaðri papriku
