Já,já þið þekkið mig, ég ELSKA kransakökur! Ég fer reglulega sérferð í IKEA til þess eins að gefa fengið mér smá marsípan! Það skemmtilega er að það má útfæra marsípanið í alls kyns kransakökugotterí. Það þarf alls ekki að vera bundið við fermingar og sett upp í turn!

Þessa hugmynd með að útbúa tölustafi úr massanum sá ég hjá Bake my Day Copenhagen en það er ofurkrúttlegt bakarí í Kaupmannahöfn sem Íslendingar eiga og reka. Mæli með að þið kíkið þangað í næstu ferð til Köben!

Tölustafina skreytti ég síðan með mínu eigin höfði og tók auðveldu leiðina út með það sem ég raðaði í kring. Keypti frosnar makkarónur í Bónus, dýfði jarðarberjum í súkkulaði og setti Maltesers og Nóakropp í bronslitað duft frá Odense og úr varð hinn fullkomni áramótabakki.

Kransakökugotterí um áramótin
Kransakökutölustafir
- 750 g Odense Marcipan
- 375 g sykur
- 1 eggjahvíta
- Setjið marsípan og sykur saman í hrærivélina og hnoðið með K-inu þar til það fer að þéttast, bætið þá eggjahvítunni saman við og blandið áfram.
- Takið úr vélinni og hnoðið í höndunum þar til vel samlagað og þétt kúla hefur myndast.
- Plastið kúluna vel og kælið í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt.
- Teiknið tölustafi á bökunarpappír (sjá mynd af tölustaf hér neðst í færslunni, ég prentaði í portrait, breytti í A3 sem er 29,7 + 42 cm). Gerði þrisvar sinnum tölustafinn 2 á eina bökunarpappírsörk ásamt einu núlli. Teiknaði það með því að nota bogann af tveimur og passaði mig að hafa þann tölustaf jafn háan og breiðan og tvistinn). Þegar þið hafið gert 2022 á eina bökunarpappírsörk má draga í gegn á aðra svo þið hafið tvö sett.
- Skiptið marsípaninu í 8 hluta. Geymið í kæli og takið einn út í einu til að rúlla.
- Rúllið í jafnar lengjur um 1 ½ cm í þvermál, skerið á endann áður en þið byrjið að raða inn í tölustafina. Reynið að hafa rúlluna fyrir miðju í hverjum tölustaf, það þarf aðeins að þjappa saman neðst í vinstra horninu á tvistunum en gerið ykkar besta til að það komi vel út.
- Notið afgangs marsípan til þess að rúlla út og skera í litla bita. Gott að raða þeim á milli tölustafanna á plötunni.
- Bakið við 200° í 9-11 mínútur eða þar til tölustafirnir fara aðeins að dökkna.
- Kælið þá næst vel og sprautið síðan glassúr og súkkulaði á þá, staflið þeim ofan á hvorn annan og raðið á fallegan disk.
Glassúr og súkkulaði
- 1 eggjahvíta (40 g)
- 190 g flórsykur
- 150 g suðusúkkulaði (brætt)
- Setjið eggjahvítu og flórsykur saman í hrærivélina og þeytið vel saman þar til fer aðeins að þykkna.
- Notið örmjóan hringlaga stút eða klippið lítið gat á sterkan poka og sprautið glassúr zik-zak yfir tölustafina og bitana. Endurtakið með bræddu súkkulaði.
Annað skraut
- Kransakökubitar
- Makkarónur
- Súkkulaðihjúpuð jarðarber
- Maltesers
- Nóakropp
- Brons duft frá Odense
- Súkkulaðihjúpið jarðarberin og raðið þeim ásamt makkarónum (keypti frosnar) og kransakökubitum í kring um tölustafina.
- Veltið Maltesers og Nóakroppi upp úr Brons dufti og raðið ofan á.

Ég gerði ártalið á tveimur hæðum en ef þið eruð í lítilli fjölskyldu áramótabúbblu þá má auðvitað hafa aðeins eina hæð af tölustöfum og helminga niður uppskriftina. Það er hins vegar aldrei til of mikið af kransaköku að mínu mati og það má líka frysta hana og laumast svo í smá og smá.

Þetta duft hef ég notað lengi til að lita alls kyns sælgæti og skreyta hjúpsúkkulaði og kökur með. Það fæst til dæmis í Krónunni og mér finnst bronsduftið þekja betur en það gyllta.

Ég held að 2022 verði frábært ár, sjáið hvað þessar tölur líta vel út saman!
