AfmælisveislaEinhyrningaafmæli

Elsku Hulda Sif mín varð 7 ára á dögunum. Hún er yngsta barnið mitt og ég á smá erfitt með hvað hún er að verða stór allt í einu! Þegar hún bað um einhyrningaafmæli var ég því bara mjög glöð því ég hugsa ég eigi ekki mörg svona þemaafmæli eftir með þær, enda búin að vera ansi dugleg með slík síðustu 20 árin!

Ég útbjó flestar kökur og sætmeti sjálf en pantaði síðan matinn að mestu því það er ekki raunhæft að gera þetta allt einn. Ég fækkaði aðeins á gestalistanum þótt erfitt hafi verið því barnaafmæli hafa verið á pari við fermingarveislur hjá mér og þetta var bara allt mjög passlegt svona. Hér fyrir neðan fer ég yfir hugmyndir í máli og myndum og set síðan linka á allt hér neðst í færslunni!

Afmæliskaka

Afmæliskakan sjálf er gerð úr 3 súkkulaðibotnum sem eru 20 cm og 3 sem eru 15 cm. Súkkulaðismjörkrem er á milli og hvítt Betty Vanilla frosting utaná (líka sem er litað), síðan skreytti ég neðri með sprinkles og síðan með horni, eyrum og augum sem ég pantaði á Amazon. Í stað þess að sprauta síðan rósir/blóm með smjörkremi skreytti ég hana með lifandi blómum og hún var svo falleg þannig!

kökupinnar

Hér eru vanillu kökupinnar í þemalitunum.

Makkarónur

Makkarónurnar pantaði ég hjá Lenumakkarónum og almáttugur hvað þær voru fallegar og góðar! Gulu voru með sítrónubragði, grænu með pistasíu, bleiku karamellu og fjólubláu með vanillu!

hvít kransakaka

Ég gerði síðan svona marglita kransaköku upp úr þessari uppskrift hér af hvítri kransaköku. Ég gerði hálfa uppskrift og skipti henni í þrjá hluta, gerði einn lit í einu og alla hringi í þeim lit, notaði svo afganginn í rice krispies pinna sem ég gleymdi að taka sérstaka mynd af en þið sjáið hér á einhverjum myndum. Bara mikilvægt að telja rétt stærðirnar á forminu. Ég notaði litað hjúpsúkkulaði/candy melts til verksins.

bollakökur

Hér hjúpaði ég ísform með lituðu hjúpsúkkulaði/candy melts og skreytti með kökuskrauti og lét storkna þannig. Bakaði síðan súkkulaði bollakökur með vanillukremi og stakk formunum ofan í.

afmæli

Á veisluborðinu var ég síðan með popp í pappaboxum, hjúpaða sykurpúða, nammi í litlum krukkum, blóm í Froosh krúsum og fleira sem ég gleymdi að mynda sérstaklega.

lemon í veisluna

Veislan var síðdegis á föstudegi svo um var að ræða kvöldmat fyrir alla gesti ásamt kökum og sætum bitum. Ég pantaði djúsa, samlokur, hamborgara og ávexti hjá Lemon sem vöktu mikla lukku!

lemon djúsar

Það er gott að jafna þetta út með hollustu í bland við óhollustu!

ávaxtabakki

Ég tók ávextina af bakkanum og flutti yfir á fallegan kökudisk og raðaði partýkúlum frá Lemon á hann líka og allir elskuðu þessa blöndu!

mini hamborgarar fyrir veislu

Hamborgararnir eru nýjung í veisluþjónustunni hjá þeim og almáttugur þeir voru æði!

Á eyjunni var síðan alls konar annað eins og skinkuhorn, pabbi bakaði púðursykurmarengs, ég gerði litlar skyrkökur í boxum frá Partýbúðinni, súkkulaði bollakökur með karamellukremi og uppáhalds kókoskakan okkar allra!

ostabakki

Það er síðan engin veisla án ostabakka og hér eru Dala Auður, Grettir, Dala hringur, Höfðingi og Búri í teningum á bakka með salami, hráskinku, eldstöfum, kexi, ávöxtum og súkkulaði ásamt góðum sultum.

Við fengum Ingunni hjá Andlitsmálun Ingunnar til að koma og bjóða upp á andlitsmálun sem sló í gegn eins og svo oft áður. Hún er algjör listakona og krakkarnir elska að fá hana!

Hér fyrir neðan er annars listi með linkum á alls konar hér í færslunni til að auðvelda ykkur leitina!

Afmælisvörur (diskar, servíettur, kerti, blöðrur o.fl) = Partýbúðin

Samlokur, hamborgarar, djús, ávextir = Lemon

Makkarónur = Lenumakkarónur

Horn, eyru, augu á einhyrningaköku = Amazon

Blóm = Garðheimar

Kökuskilti, bæði nafn og einhyrningur = Hlutprent

Andlitsmálun = Andlitsmálun Ingunnar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun