Súkkulaðiterta með rjómaostakremiFermingarkaka

Þegar fermingar, útskriftir og brúðkaup nálgast er alltaf gaman að koma með nýjar uppskriftir. Þessa dásamlegu köku getum við kallað „Fermingarkökuna 2021“ þar sem ég gerði hana fyrir sjónvarpsþáttinn Matur og heimili sem sýndur er á Hringbraut og var fermingarþema í þessum þætti.

Brúðkaupsterta eða útskriftarkaka

Sjöfn fékk okkur nokkur til þess að setja saman fallega fermingarveislu heima hjá Viktori í Sælkerabúðinni og útkoman var hreint út sagt æðisleg!

Fermingarveisla hugmyndir

Hrafnhildur hjá Blómagallerí sá um blómin og Elva Hrund stíliseraði. Sælkerabúðin sá um veitingar sem voru sjúklega girnilegar og ég gerði fermingartertu og kransakökuhjarta. Ég notaði blóm frá Hrafnhildi til að skreyta kökuna svo allt myndi tengjast á einn eða annan hátt á veisluborðinu.

Nakin kaka með blómum

Súkkulaðikaka með rjómaostakremi uppskrift

Botnar

Þessi uppskrift x 2 (hrært í sitthvoru lagi)

 • 240 g hveiti
 • 350 g sykur
 • 90 g bökunarkakó
 • 2 tsk. matarsódi
 • 1 tsk. salt
 • 250 ml súrmjólk
 • 150 ml matarolía
 • 4 egg
 • 250 ml heitt vatn
 • 1 tsk. vanilludropar
 1. Hitið ofninn í 170°C.
 2. Hrærið saman öllum þurrefnum í eina skál og leggið til hliðar.
 3. Pískið eggin og blandið súrmjólk, olíu, vanilludropum og vatni saman við.
 4. Hellið vökvanum varlega saman við þurrefnin, hrærið og skafið niður á milli (deigið er þunnt og það á að vera þannig).
 5. Takið til 4 x 15 cm form og 3 x 20 cm form, setjið bökunarpappír í botninn og spreyið vel að innan með matarolíuspreyi.
 6. Skiptið deiginu jafnt á milli formanna (fyrra deiginu í þessi fjögur 15 cm form og seinna deigi í þessi þrjú 20 cm form) og bakið í um 30-35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á en ekki blautu deigi.
 7. Kælið botnana vel og skerið svo ofan af botnunum svo þeir verði alveg sléttir og kælið þá.

Krem

 • 500 g smjör við stofuhita
 • 300 g rjómaostur við stofuhita
 • 1800 g flórsykur
 • 100 ml rjómi
 • 2 tsk. vanillusykur
 1. Þeytið smjör og rjómaost saman í nokkrar mínútur, skafið niður á milli.
 2. Bætið flórsykri, rjóma og vanillusykri saman við í nokkrum skömmtum og skafið vel niður.
 3. Smyrjið um 1 cm þykku lagi af kremi á milli botnanna á hvorri köku og hjúpið að utan með þunnu lagi svo það sjáist í hliðarnar á botnunum. Það má þó vera meira krem á toppnum sjálfum. Athugið að minni kakan þarf að sitja á pappaspjaldi til þess að geta farið ofan á hina síðar.
 4. Skafið hliðarnar sléttar og ef krem ýtist upp á toppinn á köntunum eins og á þessari köku er náttúrulegt og skemmtilegt að leyfa því bara að standa þannig í stað þess að draga það inn á kökuna sjálfa og slétta úr því.
 5. Kælið hvora köku um sig vel, gott að setja þá minni í frystinn í um klukkustund áður en þið lyftið henni yfir á hina. Setjið stoðir í neðri kökuna og lyftið hinni ákveðið ofan á hana og skreytið að lokum með ferskum blómum eða því sem hugurinn girnist.
Fermingarterta hugmyndir

Fermingarskiltið er frá Hlutprent eins og svo oft áður en þar er hægt að láta hanna kökuskilti eftir eigin óskum.

Hugmyndir fyrir ferminguna

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun