Á dögunum fékk ég það skemmtilega verkefni í hendurnar að dekka upp smáréttahlaðborð fyrir „Höllina mína“ sem er glæsilegt tímarit sem Húsgagnahöllin var að gefa út.

Hér tíndi ég til mínar uppáhalds vörur frá þeim og útbjó ljúffenga rétti sem henta vel fyrir saumaklúbbinn, veisluna eða hvað sem er. Megnið er úr Broste Nordic Coal línunni en einnig fleira úr ýmsum áttum.

Það er svo gaman að leggja á borð með fallegu leirtaui og í blaðinu er ýmislegt skemmtilegt að skoða!

Hér fyrir neðan koma þær uppskriftir og hugmyndir sem ég útbjó fyrir þetta verkefni.

Fylltar döðlur í hnetuhjúp
- Um 15 stykki stórar, ferskar döðlur
- 150 g Mascarpone ostur frá Gott í matinn
- 2 msk. hunang
- 50 g saxaðar hnetur/möndlur að eigin vali (til dæmis pekanhnetur, kasjúhnetur, pistasíur, möndlur, jarðhnetur)
- Skerið rauf í döðlurnar, fjarlægið steininn og opnið „vasa“ í þær.
- Blandið Mascarpone osti og hunangi saman í skál, setjið í sprautupoka/zip lock poka og fyllið „vasana“ á döðlunum.
- Leggið rjómaostahliðina ofan í skál með söxuðum hnetum/möndlum og veltið aðeins um svo það festist vel af blöndu við hverja döðlu.
- Geymið í kæli þar til bera á fram.

Bakaður ostur með sýrópshnetum
- Dala Auður
- 3 msk. púðursykur
- 3 msk. sýróp
- ¼ tsk. Cheyenne pipar
- 50 g saxaðar pekanhnetur
- Hitið ofninn í 200°C.
- Setjið ostinn í eldfast mót og bakið í um 10 mínútur, útbúið sýrópshneturnar á meðan.
- Setjið sykur, sýróp og pipar í pott og náið upp suðunni, lækkið hitann og hrærið vel allan tímann þar til sykurinn er uppleystur.
- Hellið þá hnetunum saman við og blandið vel, setjið að lokum blönduna úr pottinum yfir ostinn þegar hann kemur úr ofninum.

Melónuspjót
- 10 lítil tréprik
- 5 sneiðar hráskinka
- 10 Mozzarella kúlur með basilíku
- 10 melónukúlur úr um ½ kantalópumelónu
- Fersk basilíka
- Raðið upp á prik, 1 mozzarellkúlu, ½ hráskinkusneið og einni melónukúlu.
- Saxið basilíku og stráið yfir.

Tómatadásemd með bufala osti
- 1 dós kirsuberjatómatar
- 1 x bufala mozzarellakúla (stór)
- Nokkrar teskeiðar grænt pestó
- Virgin ólífuolía
- Salt og pipar
- Skerið tómata niður á disk.
- Rífið ostinn niður í bita og blandið með tómötunum.
- Hellið smá ólífuolíu yfir allt, saltið og piprið.
- Setjið smá pestó hér og þar og ferska basilíku til skrauts.
- Berið fram sem salat, með ristuðu baguette eða kexi.

Brushetta með pestó
- 12-14 sneiðar baguette brauð
- 1 Dala brie ostur
- Rautt pestó (um 1 krukka)
- Ólífuolía
- Salt og pipar
- Basilíka og litlir tómatar til skrauts
- Hitið ofninn í 200°C.
- Skerið brauðið niður, hellið/penslið smá ólífuolíu á sneiðarnar og ristið í um 3 mínútur í ofninum.
- Smyrjið pestó á hverja sneið, leggið ostsneið ofan á og smá saxaða basilíku og tómata til skrauts.

Mini pavlovur
Um 10 stykki
- 3 eggjahvítur
- 150 g púðursykur
- 350 ml þeyttur rjómi
- 150 g Þristur
- Karamellusósa (þykk íssósa)
- Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja aðeins að freyða og bætið þá sykrinum saman við í nokkrum skömmtum.
- Stífþeytið þar til topparnir halda sér og sprautið litlar kökur á bökunarplötu (eða setjið á með tveimur matskeiðum), búið til smá holu í miðjunni með skeið til að betra sé að sprauta rjómanum á eftir bakstur.
- Bakið við 110°C í rúma klukkustund og leyfið marengsinum síðan að kólna inn í ofninum í að minnsta kosti klukkutíma áður en rjóminn er settur á.
- Stífþeytið rjómann og sprautið á hverja pavlovu, skerið Þrist í bita og stráið yfir og að lokum má „drissla“ karamellu yfir hverja köku.

Kjúklingaspjót og hvítlaukssósa – keypt tilbúið

Makkarónur – keyptar tilbúnar

Ostateningar með brómberjum

Rósavín passar einstaklega vel með svona smáréttum og svo útbjó ég líka Moscow Mule drykk.

Mmm….svalandi og góður!

Tauservíettur og servíettuhringir setja svip sinn á smáréttaborðið.

Falleg hnífapör, stundum væri ég til í að eiga nokkra mismunandi liti af hnífapörum til að geta leikið mér við að leggja á borð.
